Ísfirðingar sterkari í síðari hálfleik

Eftir jafnan fyrri hálfleik þurftu Hamarsmenn að játa sig sigraða í þeim síðari þegar liðið mætti KFÍ í 1. umferð fyrirtækjabikars karla í körfubolta í gærkvöldi.

Hamar komst í 7-10 í 1. leikhluta en KFÍ skoraði þá sex stig í röð og leiddi 13-10 þegar 2. leikhluti var nýhafinn. KFÍ hafði síðan frumkvæðið fram að leikhléi þó að Hamar væri ekki langt undan en staðan var 34-28 í hálfleik.

KFÍ fór langleiðina með að klára leikinn um miðjan 3. leikhluta eftir 14-2 áhlaup þar sem þeir breyttu stöðunni úr 37-32 í 51-34. Þeir bættu svo enn í og náðu 28 stiga forskoti í byrjun 4. leikhluta, 73-45.

Þar með var úti um vonir Hamarsmanna og Ísfirðingar sigldu heim öruggum sigri í lokaleikhlutanum.

Jerry Hollis var stigahæstur hjá Hamri með 15 stig, Örn Sigurðarson skoraði 9, Eyþór Heimisson 8 og þeir Bjarni Rúnar Lárusson og Ragnar Nathanaelsson skoruðu báðir 7 stig en Ragnar tók 11 fráköst að auki.

Fyrri greinÞrjátíu virkjanir á borðinu en engin í nýtingarflokki
Næsta greinHnefarnir látnir tala um helgina