Íris útnefnd íþróttamaður Hamars

Á aðalfundi Íþróttafélagsins Hamars, sem haldinn var sl. sunnudag, var Íris Ágeirsdóttir, körfuknattleikskona Hamars, krýnd íþróttamaður Hamars ársins 2011.

Íris var fyrirliði og lykilmaður í meistaraflokki Hamars tímabilið 2010-2011 en það tímabil náði Hamar sínum besta árangri þegar kvennaliðið varð deildarmeistari á Íslandsmótinu.

Íris hefur staðið í stöngu í vetur þar sem hún fór í hjálparstarf til Tansaníu í mánaðartíma og eftir heimkomuna hefur hún drifið félaga sína í Hamarsliðinu áfram í baráttunni í deildinni.

Auk Írisar voru útnefnd íþróttamenn hverrar deildar en það eru Imesha Chaturanga, badmintonmaður, Arnar Eldon, fimleikamaður, Hugrún Ólafsdóttir, blakmaður, Sigríður Elísabet Sigmundsdóttir, hlaupari, Ingþór Björgvinsson, knattspyrnumaður og Laufey Rún Þorsteinsdóttir, sundmaður.

Á aðalfundinum var kjörinn nýr formaður Hamars, Hjalti Helgason, sem tók við af Guðríði Aadnegaard sem hefur verið formaður félagsins í 10 ár. Einnig voru kjörnir í stjórn Friðrik Sigurbjörnsson og Hallur Hróarsson. Úr stjórn gengu ásamt Guðríði, Anton Tómasson og Kent Lauridsen sem hefur gengt gjaldkera stöðu félagsins í 10 ár.