Íris með rosalegar tölur

Topplið Hamars vann yfirburða sigur á nágrönnum sínum í botnliði Laugdæla þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Lokatölur voru 92-32.

Hamar hafði algjöra yfirburði eins og í fyrri leik liðanna, skoraði átta fyrstu stig leiksins og komst í 19-2. Staðan var 50-13 í hálfleik.

Munurinn jókst síðan jafnt og þétt í seinni hálfleik og munaði þar mikið um þriggja stiga skothríðina frá Írisi Ásgeirsdóttur en hún setti niður sjö þrista í leiknum og skoraði samtals 41 stig, á rétt rúmum 20 mínútum.

Þegar lokaflautan gall var munurinn á liðunum 60 stig og toppsæti deildarinnar sem fyrr í öruggum höndum Hamarskvenna.

Íris Ásgeirsdóttir var með framlagseinkunn upp á 54 í leiknum, skoraði 41 stig og tók 11 fráköst. Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 10 stig, Dagný Lísa Davíðsdóttir 8, Margrét Arnarsdóttir, Álfhildur Þorsteinsdóttir og Jenný Harðardóttir skoruðu allar 7 stig, Freyja Fanndal Sigurjónsdóttir 5, Rakel Úlfhéðinsdóttir 3 og þær Helga Ingvarsdóttir og Katrín Össurardóttir skoruðu báðar 2 stig.

Hjá Laugdælum átti Hafdís Ellertsdóttir fínan leik með 10 stig og 17 fráköst. Þórunn Eyjólfsdóttir skoraði 6 stig, Margrét Ólafsdóttir og Þjóðbjörg Eiríksdóttir 5, Bjarnfríður Magnúsdóttir 4 og María Sigurðardóttir 2.

Fyrri greinÖskudagsstuð á Selfossi
Næsta grein„Vorum fullir af sjálfstrausti í kvöld“