Íris: Þetta er afrek fyrir félagið

Íris Ásgeirsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Hamars í körfuknattleik, var að vonum svekkt eftir tapleikinn gegn KR í gærkvöldi. KR sigraði 84-79 í oddaleik.

„Þetta er auðvitað mjög svekkjandi en það er erfitt að segja hverju er um að kenna. Ég vil meina að við höfum lagt okkur nánast 100% fram í kvöld. Það var mikil barátta í öllum þessum leikjum, við vorum óheppnar með veikindi og meiðsli fyrr í einvíginu en þetta réðist auðvitað á þessum leik í kvöld,“ sagði Íris í samtali við sunnlenska.is.

„Við spiluðum vel í fyrri hálfleik en ekki eins vel í þeim síðari. Þetta eru tvö jöfn lið og titillinn hefði getað dottið hvoru megin sem var,“ segir fyrirliðinn og bætir við að kvennakarfan eigi bjarta framtíð í Hveragerði. „Þetta er auðvitað ákveðið afrek fyrir félagið. Við höfum aldrei komist svona langt í úrslitakeppninni áður. KR er að vinna sinn fjórtánda Íslandsmeistaratitil á meðan við erum að spila okkar fjórða tímabil í úrvalsdeild. Leiðin liggur bara uppávið hjá Hamri,“ sagði Íris Ásgeirsdóttir að lokum.

Fyrri greinSjúkraflutningamönnum fækkar ekki
Næsta greinEyþór Arnalds: Vegtollar ekki eina leiðin