ÍR og Fram unnu sína leiki

Ragnarsmótið í handbolta hófst á Selfossi í kvöld með tveimur leikjum. ÍR og Fram unnu sína leiki.

Í fyrri leik kvöldsins lagði ÍR Val 25-22. ÍR-ingar höfðu undirtökin stærstan hluta leiksins og leiddu í hálfleik, 16-10.

Ingimundur Ingimundarson var markahæstur ÍR-inga með 9 mörk, Björgvin Hólmgeirsson skoraði 7 og Sturla Ásgeirsson 6. Hjá Val var Finnur Stefánsson markahæstur með 6 mörk en Valdimar Þórsson og Gunnar Harðarsson skoruðu báðir 3 mörk.

Í seinni leik kvöldsins vann Fram nokkuð öruggan sigur á FH, 27-33, þó að FH-ingar hafi saxað töluvert á forskot Fram undir lok leiksins. Staðan var 11-18 í hálfleik, Fram í vil.

Jóhann G. Einarsson var öflugur í sókninni hjá Fram og skoraði 10 mörk en Róbert Aron Hostert kom næstur honum með 7 mörk. Ólafur Gústafsson og Magnús Óli Magnússon voru markahæstir FH-inga með 7 mörk en fyrrum Selfyssingurinn Ragnar Jóhannsson komst tvívegis á blað.

Á morgun mætast Fram og Selfoss kl. 18:30 en Valur og Afturelding leika kl. 20. Leikirnir fara fram í Vallaskóla.