ÍR-ingar sterkari í lokin

Mílan tapaði 29-31 þegar ÍR kom í heimsókn í Vallaskóla á Selfossi í 1. deild karla í handbolta í kvöld.

ÍR komst í 1-3 í upphafi leiks en þá tók Mílan við sér og breytti stöðunni í 5-4. Mílan bætti við forskotið í fyrri hálfleiknum og munurinn var orðinn fjögur mörk þegar flautað var til hálfleiks, 18-14.

Gestirnir komust yfir aftur á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks, 20-21. Í kjölfarið skriðu ÍR-ingar svo framúr og voru komnir með þriggja marka forskot þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Munurinn hélst svipaður út leikinn og lokatölur urðu 29-31.

Egidijus Mikalonis var markahæstur hjá Mílunni með 8 mörk, Sævar Ingi Eiðsson skoraði 6, Atli Kristinsson 5, Ómar Vignir Helgason 4, Birgir Örn Harðarson 4/4 og Trausti Elvar Magnússon 2.

Ástgeir Sigmarsson varði 8 skot í marki Mílunnar og Hermann Guðmundsson 5.