ÍR-ingar sprækari í Set-höllinni

Hulda Hrönn Bragadóttir skoraði 4 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti ÍR í úrvalsdeild kvenna í handbolta í Set-höllinni Iðu í dag. ÍR liðið reyndist mun sprækara og sigraði 30-37.

Jafnræði var með liðunum fyrstu tuttugu mínúturnar en þá skoraði ÍR fjögur mörk í röð og breytti stöðunni í 12-18. Selfoss herti sig á lokamínútum fyrri hálfleiks og staðan var 17-20 í leikhléi.

ÍR jók muninn í sex mörk snemma í seinni hálfleik og hélt því forskoti lengst af. ÍR náði mest átta marka forskoti á lokakaflanum og sigur þeirra var aldrei í hættu.

Mia Kristin Syverud var markahæst Selfyssinga með 8/4 mörk, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir skoraði 6, Marte Syverud og Hulda Hrönn Bragadóttir 4, Arna Kristín Einarsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir 3 og þær Eva Lind Tyrfingsdóttir og Sylvía Bjarnadóttir skoruðu 1 mark hvor.

Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 6 skot í marki Selfoss og var með 33% markvörslu og Sara Xiao Reykdal varði 4 skot og var með 14% markvörslu.

Selfoss er í neðsta sæti deildarinnar með 4 stig en ÍR er í 3. sæti með 16 stig.

Fyrri greinÖruggur sigur Selfyssinga á unglingamóti HSK
Næsta greinHreint ekki eins og atvinnuviðtal