ÍR fékk sigurinn á silfurfati

Selfyssingar eru úr leik í Eimskipsbikar karla í handknattleik eftir naumt tap gegn ÍR í spennandi leik á Selfossi í kvöld. Lokatölur voru 26-28 en úrslitin réðust á síðustu sekúndunum.

Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik og komust í 6-2 og 8-3. Varnarleikurinn var ágætur í fyrri hálfleik og markvarslan góð. ÍR klóraði í bakkann fyrir leikhlé og staðan í hálfleik var 14-11.

Selfoss byrjaði betur í seinni hálfleik og komst í 19-14 en þá kom slæmur kafli þar sem Selfoss gaf ÍR auðveldan kost á að komast inn í leikinn. ÍR jafnaði 22-22 þegar 11 mínútur voru eftir.

Selfyssingar misstu boltann alltof oft í leiknum, alls sautján sinnum og í kjölfarið komu hraðar sóknir frá ÍR. Tólf af fyrstu 21 mörkum ÍR kom þannig úr hraðaupphlaupum en alls skoruðu gestirnir þrettán mörk eftir hröð upphlaup á móti níu mörkum Selfoss.

Þegar sex mínútur voru eftir komust ÍR-ingar yfir, 24-25. Selfyssingar náðu ekki forystunni eftir það en liðið tók hvað eftir annað rangar ákvarðanir í sókninni á lokakaflanum og eftirleikurinn var ÍR ekki erfiður.

Selfyssingar voru þó inni í leiknum á lokamínútunni. Þegar ein mínúta var eftir af leiknum var staðan 26-27 og ÍR með boltann. Helgi Hlynsson varði hins vegar glæsilega skot frá ÍR-ingum og Selfoss fékk boltann þegar 40 sekúndur voru eftir. Kæruleysi í sókninni varð hins vegar til þess að Selfoss missti boltann á klaufalegan hátt í hendur ÍR sem skoruðu úr hraðaupphlaupi þegar 20 sekúndur voru eftir og tryggðu sigurinn. Með tapaðan leik í höndunum misstu Selfyssingar boltann aftur við miðlínuna í næstu sókn en Helgi markvörður sá við síðasta skoti ÍR.

Atli Kristinsson og Hörður Bjarnarson skoruðu báðir sex mörk og skotnýting Harðar var 100%. Andri Már Sveinsson og Eyþór Lárusson skoruðu fjögur mörk, Gunnar Ingi Jónsson og Guðni Ingvarsson voru báðir með þrjú.

Sverrir Andrésson varði 22 skot og var með 48% markvörslu og Helgi Hlynsson varði fjögur og var með 50% markvörslu.

Fyrri greinÞór lagði ÍR í Lengjubikarnum
Næsta greinGjáar reunion á 800Bar