Ingólfur semur – Dani til reynslu

Miðjumaðurinn Ingólfur Þórarinsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Umf. Selfoss. Selfyssingar eru með danskan miðvörð til reynslu þessa dagana.

Ingólfur hefur leikið yfir 100 leiki með Selfyssingum á síðustu árum en hann hefur einnig verið í herbúðum Fram og Víkings. Ingólfur kom aftur á Selfoss frá Víkingum undir lok síðasta sumars og lék 6 leiki í 1. deildinni.

Annars er það að frétta að danski leikmaðurinn Allan Arenfeldt Olesen er til reynslu hjá Selfyssingum þessa dagana og mun hann leika æfingaleik með liðinu gegn Keflavík á morgun.

Olesen er 29 ára gamall, reynslumikill leikmaður úr dönsku og norsku úrvalsdeildinni. Hann spilaði með finnska liðinu IFK Mariehamn á síðasta keppnistímabili og á að baki landsleiki með yngri landsliðum Danmerkur, m.a. 15 U21 árs leiki.