Ingibjörg og Lilja sterkastar

Ingibjörg Lilja Kristjánsdóttir frá Reykjavík og Hrunakonan Lilja B. Jónsdóttir frá Hornafirði sigruðu í dag í keppninni um Sterkustu konu Íslands sem haldin var í Þorlákshöfn.

Sex konur tóku þátt í tveimur þyngdarflokkum og var keppnin æsispennandi. Kraftakonurnar kepptu í fimm greinum, öllum innanhúss í íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn og réðust úrslitin ekki fyrr en í síðustu greininni.

Í +75 kg flokknum fór svo að lokum að Ingbjörg Lilja sigraði en Stokkseyringurinn Þóra Þorsteinsdóttir, sem átti titil að verja, varð önnur og munaði aðeins einu stigi á þeim þegar upp var staðið. Hallveig Guðmundsdóttir frá Reykjavík varð þriðja og hin nítján ára gamla Berglind Rós Bergsdóttir frá Syðri-Gegnishólum í Flóahreppi varð fjórða í sinni fyrstu keppni.

Hornfirðingurinn Lilja B. Jónsdóttir frá Götu í Hrunamannahreppi sigraði í -75 kg flokknum, aðeins þremur stigum á undan Reykvíkingnum Kristínu Lúðvíksdóttur.

Keppnin var vel sótt en stúkan var þéttsetin og stemmningin góð en áhorfendur studdu vel við bakið á keppendunum.


Þóra Þorsteinsdóttir varð í 2. sæti í +75 kg flokknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Berglind Rós Bergsdóttir varð í 4. sæti í +75 kg flokknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Áhorfendur voru vel með á nótunum og studdu sitt fólk vel. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinÁslaug með stórleik í góðum sigri Selfoss
Næsta greinLýður ráðinn í Laugarás