Ingibjörg Erla fékk afrekskvennastyrk

Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, taekwondokona úr Umf. Selfoss, fékk í dag afhenta hálfa milljón króna úr Afrekskvennasjóði Íslandsbanka og ÍSÍ.

Ingibjörg Erla hefur verið ein fremsta taekwondokona landsins um árabil þrátt fyrir ungan aldur. Hún er margfaldur Íslands- og bikarmeistari og fjórum sinnum hefur hún hlotið nafnbótina Taekwondokona ársins. Ingibjörg Erla hefur fjórum sinnum orðið Norðurlandameistari í grein sinni og náð góðum árangri á alþjóðlegum mótum. Ingibjörg Erla er í Team Nordic sem er hópur fremstu taekwondo keppenda Norðurlanda. Hún keppti fyrir skemmstu á EM U21 og mun á komandi mánuðum taka þátt í alþjóðlegum mótum þar sem keppt er um stig sem gilda til þátttöku á Ólympíuleikum.

Auk hennar fengu sundkonurnar Thelma Björg Björnsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir styrki ásamt A-landsliði kvenna í körfubolta. Selfyssingurinn og landsliðskonan Marín Laufey Davíðsdóttir var meðal þeirra sem tók við styrknum fyrir hönd Körfuknattleikssambands Íslands.

Afrekskvennasjóður Íslandsbanka og ÍSÍ var stofnaður með framlagi bankans árið 2007. Markmið og tilgangur sjóðsins er að styðja við bakið á afrekskonum í íþróttum og gera þeim betur kleift að stunda sína íþrótt og ná árangri. Er nú verið að úthluta í ellefta sinn úr sjóðnum.

Fyrri greinDímon vann annað árið í röð
Næsta greinStofna starfshóp um umhverfismál