Ingi með eina mark Selfoss

Selfyssingar töpuðu fyrir Keflavík í lokaleik sínum í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag, 3-1.

Liðin mættust í Reykjaneshöllinni og það voru Selfyssingar sem byrjuðu betur. Ingi Rafn Ingibergsson skoraði fallegt mark og kom Selfoss í 0-1. Skömmu síðar fengu Keflvíkingar vítaspyrnu en Jóhann Ólafur Sigurðsson varði spyrnuna.

Selfyssingar voru sterkari fyrstu 30 mínúturnar en Keflvíkingar sóttu í sig veðrið á síðasta korterinu og jöfnuðu 1-1 fyrir leikhlé.

Í upphafi seinni hálfleiks fengu Selfyssingar vítaspyrnu og viðar Örn Kjartansson fór á punktinn en Ómar Jóhannsson sá við honum og varði. Ómar kom boltanum beint fram völlinn þar sem Keflvíkingar refsuðu Selfyssingum með marki og komust 2-1 yfir.

Keflavík skoraði svo þriðja markið á lokakaflanum en heimamenn voru heilt yfir sterkari í leiknum þó að Selfyssingar hafi átt ágætan leik.

Selfoss lauk keppni í riðlinum í 6. sæti með átta stig. Liðið vann tvo leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði þremur leikjum.