Ingi aðstoðar Dino á Selfossi

Ingi Rafn Ingibergsson í leik með Selfyssingum sumarið 2020. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ingi Rafn Ingibergsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs Selfoss í knattspyrnu. Hann hefur þegar tekið til starfa, enda lið Selfoss komið á fullt í sínum undirbúningi fyrir næsta tímabil.

Inga þarf ekki að kynna fyrir stuðningsmönnum Selfoss en hann á að baki ríflega 300 leiki fyrir Selfoss. Auk þess hefur hann spilað fyrir Ægi, ÍBV, Frey og nú síðast Árborg.

Undanfarin ár hefur Ingi Rafn starfað á skrifstofu knattspyrnudeildarinnar ásamt því að þjálfa yngri flokka Selfoss. Hann vinnur nú að því að sækja sér UEFA-A þjálfararéttindi.

Fyrr í vikunni tilkynntu Selfyssingar um eins árs framlengingu á samningi Stefáns Loga Magnússonar, markmannsþjálfara meistaraflokks, og er því þjálfarateymi Dean Martin farið að taka á sig góða mynd.

Stefán Logi verður áfram markmannsþjálfari karlaliðsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri grein„Þetta var mjög gjöfult grínár“
Næsta greinSkrásetja öll sorpílát í sveitarfélaginu