Ingþór og Arnar Logi í Selfoss

1. deildarlið Selfoss í knattspyrnu hefur fengið tvo fríska leikmenn til liðs við sig úr nágrannafélögum, þá Arnar Loga Sveinsson frá Ægi og Ingþór Björgvinsson frá Hamri.

Arnar Logi er 17 ára miðjumaður, uppalinn hjá Ægi, en hann skrifaði undir þriggja ára samning við Selfyssinga. Þrátt fyrir ungan aldur á Arnar Logi níu leiki að baki í deild og bikar með Ægi en hann var einungis 14 ára þegar hann spilaði með liðinu í bikarnum árið 2011. Síðastliðið sumar spilaði Arnar Logi fimm leiki með Ægismönnum í 2. deildinni.

Ingþór er einnig miðjumaður, 21 árs gamall, og hefur hann leikið með Hamri allan sinn feril en hann var fyrirliði liðsins í 3. deildinni síðastliðið sumar. Ingþór hefur spilað með meistaraflokki síðan árið 2008 en hann hefur skorað 17 mörk í 106 deildar og bikarleikjum.

Auk þeirra tveggja verður leikmaður ársins 2014, Luka Jagacic, áfram í herbúðum Selfoss ásamt framherjanum Elton Barros. Þá hefur vængmaðurinn Marko Pavlov verið að æfa með Selfyssingum að undanförnu, en hann lék síðast með Víkingum í 1. deildinni árið 2013.

Fyrri greinMeta kostnað við ljósleiðara
Næsta greinKettirnir hans Ólafs fundnir