ÍBV vann Suðurlandsslaginn

Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 7 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti ÍBV í Suðurlandsslag í Olísdeild kvenna í handbolta í dag. ÍBV var sterkari aðilinn þegar leið á leikinn og sigraði 32-27.

Selfoss hafði frumkvæðið fyrstu tíu mínúturnar en þá skoraði ÍBV fjögur mörk í röð og breytti stöðunni í 11-7. Munurinn varð mestur sjö mörk í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi var 19-12. Selfyssingar réðu illa við Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur, sem var besti maður vallarins og markahæst hjá ÍBV með 11/6 mörk.

Forskot ÍBV var öruggt allan seinni hálfleikinn og þegar tíu mínútur voru eftir var munurinn tíu mörk, 31-21. Selfoss minnkaði muninn um fimm mörk á lokakaflanum og lokatölur urðu 32-27.

Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 7/2 mörk, Tinna Sigurrós Traustadóttir, Ásdís Þóra Ágústsdóttir og Rakel Guðjónsdóttir skoruðu allar 5 mörk, Emilía Ýr Kjartansdóttir skoraði 3 og þær Katla Björg Ómarsdóttir og Inga Sól Björnsdóttir skoruðu sitt markið hvor. Þá var Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir traust í vörninni með 3 lögleg stopp og 1 blokkað skot.

Cornelia Hermansson varði 11 skot í marki Selfoss og var með 26% markvörslu og Dröfn Sveinsdóttir varði 2/1 skot og var með 50% markvörslu.

Fyrri greinPennar á lofti í Stekkjaskóla
Næsta greinGul viðvörun í gildi