ÍBV og HK sigruðu á Ragnarsmótinu

ÍBV sigraði á Ragnarsmóti kvenna. Ljósmynd/UMFS

HK sigraði á Ragnarsmóti karla í handknattleik og ÍBV á Ragnarsmóti kvenna. Síðustu leikir mótsins fóru fram í gær en það voru viðureignir Selfoss og ÍBV, bæði í karla og kvennaflokki.

Leikur karlaliðanna var hörkuskemmtilegur, ÍBV hafði yfirhöndina stærstan hluta leiksins en Selfyssingar voru aldrei langt undan. Staðan í hálfleik var 14-18 fyrir ÍBV sem vann að lokum sigur 31-33. ÍBV hefði þurft að vinna með fimm marka mun til þess að tryggja sér sigurinn á mótinu en það gekk ekki og því varð HK sófameistari þetta árið.

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Álvaro Mallols skoraði 4, Dagur Rafn Gíslason, Guðjón Óli Ósvaldsson, Haukur Páll Hallgrímsson og Jason Dagur Þórisson skoruðu allir 3 mörk, Elvar Elí Hallgrímsson, Gunnar Kári Bragason og Hákon Garri Gestsson 2 og Anton Breki Hjaltason og Sölvi Svavarsson skoruðu 1 mark hvor. Egill Eyvindur Þorsteinsson og Ísak Kristinn Jónsson vörðu báðir 3 skot í marki Selfoss.

Hjá ÍBV var Dagur Arnarsson markahæstur með 7 mörk og Petar Jokanovic varði 6 skot.

Hreinn úrslitaleikur hjá konunum
Í kvennaflokki mættust Selfoss og ÍBV í hreinum úrslitaleik. Jafnræði var með liðunum fyrsta korterið en þá tók ÍBV leikinn í sínar hendur og staðan var 13-15 í leikhléi. Eyjakonur keyrðu upp hraðann í seinni hálfleiknum og unnu verðskuldaðan stórsigur, 22-33.

Ída Bjarklind Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir, Harpa Valey Gylfadóttir og Sara Dröfn Rikharðsdóttir skoruðu allar 3 mörk, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir 2 og þær Eva Lind Tyrfingsdóttir, Inga Sól Björnsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 1 mark. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 16 skot í marki Selfoss og Sara Xiao Reykdal 1.

Hjá ÍBV var Birna Berg Haraldsdóttir markahæst með 7 mörk og Amalie Frøland varði 10 skot.

Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir var valin besti varnarmaðurinn. Ljósmynd/UMFS

Leikmenn ÍBV rökuðu inn einstaklingsverðlaunum
Í lok Ragnarsmótsins er hefð fyrir því að verðlauna leikmenn fyrir frammistöðu sína. Hjá konunum var Sandra Erlingsdóttir, ÍBV, valin besti leikmaðurinn og liðsfélagar hennar, Birna Berg og Amalie Frøland voru besti sóknarmaður og besti markmaður. Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir, Umf. Selfoss, var valin besti varnarmaðurinn og Katrín Helga Davíðsdóttir úr Aftureldingu var markahæst með 22 mörk.

Hjá körlunum var Dagur Arnarsson, ÍBV, valinn besti leikmaðurinn og samherjar hans, þeir Ísak Rafnsson og Petar Jokanovic voru besti varnarmaður og besti markmaður. Hákon Garri Gestsson, Umf. Selfoss, var valinn besti sóknarmaðurinn og Haukur Ingi Hauksson úr HK var markahæstur með 25 mörk.

Hákon Garri Gestsson var valinn besti sóknarmaðurinn. Ljósmynd/UMFS
Fyrri greinMÍ í frjálsum – Bein útsending
Næsta greinRaw jarðarberja- og súkkulaðikaka