Íbúum á Sólheimum boðið á leikinn í kvöld

Karlalið Selfoss í knattspyrnu fór í heimsókn á Sólheima í Grímsnesi sl. föstudag og bauð heimilisfólki þar á leik Selfoss og Fram í Pepsi-deildinni í kvöld.

Auk þess að gleðja íbúana á Sólheimum með aðgöngumiðum og veggspjöldum af liðinu tók miðjumaðurinn Ingó lagið og allir skemmtu sér hið besta.

Að auki tóku knattspyrnumennirnir að sér verkefni fyrir líknarfélagið Bergmál sem á hús á Sólheimum. Leikmennirnir tíndu mosa sem nýttur verður í húsbyggingunni en verkið er unnið í minningu Sigurðar Karlssonar, verktaka á Selfossi. Systir hans, Kolbrún Karlsdóttir, er formaður Bergmáls sem er stuðningsfélag fyrir krabbameinssjúka og langveika.