ÍA – Selfoss 2-1

Selfyssingar eru fallnir úr leik í VISA-bikar karla eftir 2-1 tap gegn ÍA á útivelli. Davíð Birgisson skoraði mark Selfoss.

Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, gerir fimm breytingar á byrjunarliði Selfoss sem mætir ÍA í 32-liða VISA bikarsins á Akranesi í kvöld.

18. mín: Selfyssingar hafa verið meira með boltann en ekki náð að skapa sér færi. Skagamenn fengu fyrsta færi leiksins snemma leiks eftir skyndisókn en það fór forgörðum. Heimamenn liggja til baka og freista þess að sækja hratt. Eins og alltaf er strekkingur á Skaganum og Selfyssingar leika með vindinn í bakið í fyrri hálfleik.

21. mín: Selfyssingar fá fyrstu hornspyrnu leiksins, Ingi Rafn fær boltann fyrir utan og reynir skot sem er varið.

24. mín: Gott færi hjá Selfyssingum. Davíð Birgisson á skalla að marki en markvörður Skagamanna ver vel.

25. mín: Guðmundur Þórarinsson kveinkar sér yfir nárameiðslum eftir hættulega aukaspyrnu og virðist vera á leiðinni útaf. Sóknir Selfyssinga þyngjast og Ingi Rafn og Ingþór gera sig báðir líklega upp við mark ÍA en markvörður þeirra er á tánum og ver vel í tvígang.

28. mín: Stórtíðindi á Akranesvelli. Gamla kempan Gunnar Rafn Borgþórsson kemur inná fyrir Guðmund Þórarinsson. Gunnar kemur inn á miðjuna og Einar Ottó fer út á kantinn.

32. mín: Stefán Ragnar fær gult spjald fyrir brot á Hirti Júlíusi. Strangur dómur fyrir meinlaust fyrsta brot. Leikurinn er að róast eftir ágætar sóknir Selfoss.

45. mín: MARK!!! 1-0 Andri Júlíusson kemur Skagamönnum yfir. Stefán Ragnar reyndi langa spyrnu fram úr öftustu línu en rann í sendingunni. Skagamenn sluppu einir innfyrir og skoruðu örugglega.

Seinni hálfleikur hafinn.

47. mín: MARK!!! 1-1 Stefán Ragnar skallaði boltann inn á markteig eftir hornspyrnu þar sem Davíð Birgisson kom knettinum í markið með bakfallsspyrnu eftir klafs í teignum.

49. mín: Jóhann Ólafur ver vel frá Hirti Júlíusi. Liðin sækja á víxl en byrjunin á síðari hálfleik hefur verið fjörugri en allur fyrri hálfleikurinn til samans.

61. mín: Einar Ottó tekinn af velli og Jón Daði Böðvarsson kemur inná í hans stað.

67. mín: Hjörtur Júlíus lítur gula spjaldið fyrir gróft brot. Selfyssingar vildu í það minnsta appelsínugult.

70. mín: Skagamenn fá vítaspyrnu. Jón Daði tók boltann af Andra Júlíussyni en er dæmdur brotlegur. Jón Daði er brjálaður og hefur nokkuð til síns máls. Davíð Birgisson fær gult.

71. mín: Hjörtur Júlíus sannar það að það var engin innistæða fyrir vítinu og skýtur boltanum framhjá.

72. mín: Magnús Þórisson dómari er að fara á kostum. Guðmundi Benediktssyni þjálfara líkar ekki þessi skemmtidagskrá og fær gult spjald fyrir mótmæli.

79. mín: MARK!!! 2-1 Skagamenn komast yfir með skallamarki eftir hornspyrnu, slöpp vörn hjá Selfoss. Andri Geir Alexandersson skorar.

Leikslok. Eftir fjörugan lokakafla er sigur Skagamanna staðreynd. Selfyssingar fengu meðal annars vítaspyrnu sem Magnús Þórisson dró svo til baka.

Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson (M), Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Agnar Bragi Magnússon, Stefán Ragnar Guðlaugsson (F), Jón Steindór Sveinsson, Guðmundur Þórarinsson (Gunnar Rafn Borgþórsson +30), Jón Guðbrandsson (Ingólfur Þórarinsson +82), Einar Ottó Antonsson (Jón Daði Böðvarsson +62), Ingi Rafn Ingibergsson, Ingþór Jóhann Guðmundsson, Davíð Birgisson.
Varamannabekkurinn: Elías Örn Einarsson, Kjartan Sigurðsson, Andri Freyr Björnsson, Ingólfur Þórarinsson, Sævar Þór Gíslason, Gunnar Rafn Borgþórsson, Jón Daði Böðvarsson. Arilíus Marteinsson dettur út úr hópnum vegna bakmeiðsla.

Fyrri greinNorskir bændur greiða fyrir afleysingar undir Fjöllunum
Næsta greinMikil ánægja með hreinsunarátak