Í 3. sæti í sinni fyrstu keppni

Jón Örn Ingileifsson og Sigurjón Þór Þrastarson urðu í 3. sæti í Tjarnagrill rallinu, 1. umferð Íslandmótsins í rallakstri, sem fram fór um helgina.

Jón Örn, sem er núverandi Íslandsmeistari í torfæruakstri, seldi torfærubíl sinn, Kórdrenginn, í vetur og færði sig yfir í rallið. Þetta var fyrsta keppni hans og aðstoðarökumannsins Sigurjóns Þórs Þrastarsonar en þeir aka Mitsubishi Evo 6.

Tjarnagrill rallið var haldið af Akstursíþróttafélagi Suðurnesja en eknar voru sautján sérleiðir á föstudag og laugardag og leiddu þeir Jón og Sigurjón keppnina um tíma á föstudagskvöldið.

Óhætt er að segja að þriðja sætið sé góður árangur fyrir nýliða í rallinu en Jón og Sigurjón komu í mark 2:15 mín á eftir sigurvegurunum, Jóni Bjarna Hrólfssyni og aðstoðarökumanni hans, Selfyssingnum Halldóri Gunnari Jónssyni.