Hvorugt liðið sátt við eitt stig

Arnar Logi Sveinsson fór meiddur útaf eftir þessa tæklingu sem Orri Sigurjónsson uppskar gult spjald fyrir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Þór Akureyri skildu jöfn 1-1 í botnbaráttu 1. deildar karla í knattspyrnu á Selfossi í kvöld.

Selfyssingar voru sterkari aðilinn stærstan hluta leiksins en tókst þrátt fyrir það ekki að fá þrjú stig út úr honum. Gestirnir byrjuðu betur og komust yfir strax á 8. mínútu eftir lága fyrirgjöf frá hægri sem fór í gegnum teiginn allan teiginn og á Bjarna Brynjólfsson sem skoraði auðveldlega.

Skömmu síðar átti Aron Einarsson gott skot sem hafnaði í þverslánni og í kjölfarið áttu Selfyssingar ágætar sóknir en staðan var þó ennþá 0-1 í hálfleik.

Þórsarar byrjuðu betur í seinni hálfleik en það var virkilega fátt um færi og lítið að frétta fyrr en á 67. mínútu að Gary Martin átti gott skot að marki Þórs en aftur fór boltinn í þverslána. Selfyssingar hertu tökin eftir þetta og á 75. mínútu skoraði varamaðurinn Valdimar Jóhannsson með hnitmiðuðu skoti eftir klafs í vítateig gestanna.

Leikurinn opnaðist aðeins á lokakaflanum og bæði lið áttu álitlegar sóknir. Selfyssingar sköpuðu mikinn usla á vítateig Þórs síðustu fimm mínúturnar en boltinn vildi alls ekki aftur í netið og því varð niðurstaðan 1-1 jafntefli og bæði lið virtust svekkt með þá niðurstöðu.

Selfyssingar hafa nú 9 stig í 9. sæti deildarinnar en Grótta sem er í 10. sætinu á leik til góða. Þór er í 7. sæti með 12 stig.

Fyrri greinÚtilega í Þrastaskógi fór úr böndunum
Næsta greinÖruggt hjá Hamri – KFR tapaði