Selfoss fékk Leikni í heimsókn í sex stiga leik í botnbaráttu 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.
Gestirnir byrjuðu af krafti en Selfyssingar sýndu fljótlega klærnar og Aron Fannar Birgisson kom þeim yfir á 21. mínútu með skoti af stuttu færi eftir góðan sprett Frosta Brynjólfssonar á vinstri kantinum. Selfyssingar höfðu yfirhöndina í kjölfarið og fengu ágæt færi en hinu megin á vellinum var Selfossvörnin og Robert Blakala í markinu með allt á hreinu. Staðan var 1-0 í hálfleik.
Selfyssingar voru sprækari á upphafsmínútum síðari hálfleiks og á 52. mínútu skoraði Aron Fannar aftur og aftur var það Frosti á kantinum sem sá um undirbúninginn. Fljótlega eftir markið misstu Selfyssingar dampinn og Leiknismenn gengu á lagið. Þeir skoruðu tvívegis með stuttu millibili og þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir var staðan orðin 2-2.
Lokakaflinn var heldur betur dramatískur. Leiknismenn virtust líklegri allt þar til í uppbótartímanum en þá tóku Selfyssingar yfir og þjörmuðu hressilega að gestunum. Raúl fékk besta færið á 93. mínútu þegar hann slapp skyndilega einn í gegn en Ólafur Íshólm, markvörður Leiknis, bjargaði sínum mönnum og sá við honum. Skömmu síðar fékk varnarmaður Leiknis fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt og í kjölfarið óðu Selfyssingar í færum en tókst ekki að koma boltanum í netið.
Bæði lið virtust vonsvikin þegar dómarinn flautaði af en stigið dugði Selfyssingum til að lyfta sér upp fyrir Fjölni í 11. sætið. Selfoss er nú með 7 stig en Leiknir í 9. sætinu með 9 stig.