Hvítárbrúin eykur aðsókn

,,Sumarið hefur farið ágætlega af stað hjá okkur. Bókanir hjá hópum hafa ekki verið lakari þrátt fyrir kalt vor og aðsóknin í miðri viku er betri en í fyrra.

Núna bíðum við bara eftir því að það fari að rigna aðeins á flatirnar,” segir Unnsteinn Eggertsson, rekstrarstjóri hjá Kaffi Sel, sem rekur golfvöllinn á Flúðum.

Heldur er að fjölga í golfklúbbnum á Flúðum og Unnsteinn sagði að þeir sæju þegar þess merki að brúin yfir Hvítá yki aðsókn.
Hann sagði að þeir gerðu þó ráð fyrir að áhrifin af tilkomu hennar yrðu ekki alfarið komin fram fyrr en á næsta ári. Á síðasta ári var ráðist í að breyta tveimur brautum á vellinum og sagði Unnsteinn að það væri að koma vel út. Golfvöllurinn er 18 holur.

Við völlinn starfa 12 manns í sumar, sumir í hlutastörfum. Þrír starfsmenn eru fastráðnir yfir allt árið.