Hvergerðingar kátir í Gjánni

Ragnar Nathanaelsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann nokkuð öruggan sigur á Selfossi í grannaslagnum í 1. deild karla í körfubolta. Liðin mættust í Gjánni á Selfossi í kvöld.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en í 2. leikhluta tóku Hvergerðingar af skarið og leiddu í hálfleik, 37-50. Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta og þó að Selfyssingar hafi átt góðan endasprett þá náðu þeir ekki að ógna Hamri að ráði. Lokatölur urðu 78-87.

Jose Medina var stigahæstur hjá Hamri með 30 stig og Ragnar Nathanaelsson var sömuleiðis firnasterkur með 16 stig og 18 fráköst. Hjá Selfyssingum var Gerald Robinson atkvæðamestur en hann spilaði allar 40 mínútur leiksins og skoraði 27 stig, en leikmannahópur Selfoss var nokkuð þunnskipaður í kvöld.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 26 stig og Selfoss er í 4. sæti með 16 stig.

Selfoss-Hamar 78-87 (16-19, 21-31, 17-22, 24-15)
Tölfræði Selfoss: Gerald Robinson 27/6 fráköst/3 varin skot, Kennedy Aigbogun 18/5 fráköst, Arnaldur Grímsson 14/8 fráköst, Styrmir Jónasson 9, Ísak Júlíus Perdue 8/4 fráköst/8 stoðsendingar, Birkir Hrafn Eyþórsson 2/4 fráköst.
Tölfræði Hamars: Jose Medina 30/5 fráköst/9 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson 16/18 fráköst/4 varin skot, Björn Ásgeir Ásgeirsson 15, Brendan Howard 13/5 fráköst, Alfonso Birgir Gomez 5, Elías Bjarki Pálsson 4, Haukur Davíðsson 2, Daði Berg Grétarsson 2/5 stoðsendingar, Daníel Sigmar Kristjánsson 5 fráköst.

Fyrri greinFé brann inni í Ásahreppi
Næsta greinHjálmar Vilhelm með Íslandsmet í fimmtarþraut