Hamar vann stórsigur á Ármanni í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi 1. deildar karla í körfubolta í Hveragerði í dag. Eins og í fyrsta leiknum var varnarleikurinn lagður á hilluna en nú voru það Hvergerðingar sem blómstruðu í sókninni.
Hamar hóf leikinn á miklu áhlaupi en þeir skoruðu 40 stig í 1. leikhluta. Staðan í hálfleik var 74-48. Ármenningar svöruðu fyrir sig í 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða var staðan orðin 97-87. Nær komust Ármenningar ekki, Hamar kláraði leikinn af öryggi og sigraði 122-103.
Jose Medina var stiga- og framlagshæstur Hvergerðinga með 32 stig og 17 stoðsendingar, Jaeden King skoraði 31 stig og tók 6 fráköst.
Staðan í einvíginu er því 1-1 og næsti leikur liðanna er í Laugardalshöllinni þann 6. maí. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki tryggir sér sæti í úrvalsdeildinni.
Hamar-Ármann 122-103 (40-20, 34-28, 23-32, 25-23)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 32/5 fráköst/17 stoðsendingar, Jaeden King 31/6 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 24, Birkir Máni Daðason 14, Lúkas Aron Stefánsson 8/6 fráköst, Daníel Sigmar Kristjánsson 6, Fotios Lampropoulos 4/15 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 3.