Hvergerðingar héldu haus

Hamar vann nokkuð öruggan sigur á sterku liði Hauka í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 82-76, þegar liðin mættust í Hveragerði.

Fyrsti leikhlutinn var jafn en þegar þrjár mínútur voru eftir af honum skoraði Hamar níu stig í röð og breytti stöðunni úr 12-14 í 21-14. Annar leikhluti einkenndist af baráttu þar sem lítið var skorað og staðan var 35-24 í hálfleik.

Framan af þriðja leikhluta virtist allt stefna í öruggan sigur Hamars en þegar Ragnar Nathanaelsson lauk hraðri sókn undir lok leikhlutans með frábærri troðslu og kom Hamri í 52-36 virtust Hvergerðingar vera orðnir sáttir með framlag kvöldsins og slökuðu full mikið á klónni í framhaldinu.

Staðan var 56-41 í lok 3. leikhluta en hægt og bítandi unnu Haukar niður forskotið í síðasta fjórðungnum og minnkuðu muninn niður í sex stig, 79-73, þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum. Það er langur tími í körfubolta en Hvergerðingar héldu haus og kláruðu leikinn á vítalínunni þar sem Lárus þjálfari Jónsson setti niður þrjú af fjórum vítum á síðustu sekúndunum.

Jerry Hollis var bestur í liði Hamars með 24 stig og 16 fráköst. Lárus Jónsson og Örn Sigurðarson skoruðu báðir 15 stig, Halldór Gunnar Jónsson og Hjalti Valur Þorsteinsson 8, Ragnar Nathanaelsson 6, Bjartmar Halldórsson 4 og Bjarni Rúnar Lárusson 2.

Að tveimur umferðum loknum eru Hamarsmenn taplausir ásamt Val og Hetti.

Fyrri greinSkelfileg byrjun varð FSu að falli
Næsta grein„Ekki þekktir fyrir að sparka í liggjandi mann“