Hvergerðingar skelltu Blikum

Hamar vann virklega góðan sigur á toppliði Breiðabliks í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Frystikistunni í Hveragerði urðu 96-90.

Hamar byrjaði leikinn betur og leiddi að loknum 1. leikhluta, 27-20. Staðan í leikhléi var 53-48. Hamar náði níu stiga forskoti í upphafi síðari hálfleiks en Blikar önduðu niður um hálsmálið á þeim allan seinni hálfleikinn og jöfnuðu svo 82-82 þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Smári Hrafnsson svaraði strax fyrir Hamar með þriggja stiga körfu og heimamenn voru skrefinu á undan á lokamínútunum. Larry Thomas kláraði svo leikinn fyrir Hamar á vítalínunni með því að setja niður fjögur skot á síðustu sextán sekúndum leiksins.

Thomas var bestur í liði Hamars í kvöld og skoraði 29 stig. Julian Nelson var líka drjúgur og tók til að mynda sex sóknarfráköst.

Hamar er nú í 5. sæti deildarinnar með 4 stig að loknum fjórum leikjum

Tölfræði Hamars: Larry Thomas 29, Julian Nelson 13/11 fráköst, Ísak Sigurðarson 13/5 fráköst, Arnór Ingi Ingvason 10, Smári Hrafnsson 9/5 stoðsendingar, Þorgeir Freyr Gíslason 9/7 fráköst/5 stoðsendingar, Oddur Ólafsson 6/4 fráköst, Mikael Rúnar Kristjánsson 3, Kristinn Ólafsson 2, Guðjón Ágúst Guðjónsson 2.

Fyrri greinLoksins sigur hjá Þórsurum
Næsta greinRjúpnaskytturnar fundnar