Hvergerðingar í miklum ham

Hamarsmenn sýndu sparihliðarnar þegar þeir fengu Þór Ak í heimsókn í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hvergerðingar unnu öruggan sigur, 113-82.

Fyrsti leikhluti var jafn en í stöðunni 12-12 tóku Hamarsmenn sprett og leiddu að loknum 1. leikhluta, 26-16.

Munurinn jókst um tíu stig framan af 2. leikhluta og þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir af honum leiddi Hamar 53-33. Þórsarar svöruðu hins vegar fyrir sig og náðu 2-14 áhlaupi þannig að staðan var 55-47 í hálfleik.

Hamar hélt Þór í hæfilegri fjarlægð í 3. leikhluta en í síðasta fjórðungnum gerðu Hvergerðingar út um leikinn á fyrstu fimm mínútunum þegar þeir tóku 22-2 áhlaup og juku muninn í 30 stig, 99-69. Þórsarar áttu engin svör við þessu og Hamar kláraði leikinn með sóma.

Jerry Hollis sór algjörlega á kostum í leiknum og var með 55 í framlagseinkunn. Hann skoraði 39 stig, tók 17 fráköst, átti 6 stoðsendingar og stal 6 boltum. Örn Sigurðarson og Ragnar Nathanaelsson áttu báðir frábæran leik, Örn skoraði 25 stig og tók 10 fráköst og Ragnar skoraði 19 stig og tók 20 fráköst auk þess sem hann varði 8 skot. Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 16 stig og þeir Halldór Gunnar Jónsson og Bjartmar Halldórsson skoruðu báðir 7 stig.

Hamar er nú í 2. sæti deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir.

Fyrri greinOrkuveita stofnuð í uppsveitunum
Næsta greinUngir Selfyssingar lágu fyrir Víkingum