Hvergerðingar flengdir á heimavelli

Hamarsmenn fengu slæman skell þegar þeir tóku á móti Hetti í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Gestirnir völtuðu yfir Hvergerðinga í seinni hálfleik og sigruðu 66-106.

Leikurinn var jafn til að byrja með, Höttur var skrefinu á undan og leiddi að loknum 1. leikhluta, 14-18. Gestirnir höfðu áfram frumkvæðið í 2. leikhluta og leiddu með fimm stigum í hálfleik, 39-44.

Hamar var hreinlega ekki með í 3. leikhluta. Höttur byrjaði á 2-18 áhlaupi og lauk leikhlutanum með annarri 2-13 skorpu. Þar með höfðu gestirnir gert út um leikinn og leiddu með þrjátíu stiga mun að loknum 3. leikhluta, 47-77. Munurinn jókst svo um tíu stig til viðbótar í síðasta fjórðungnum.

Oddur Ólafsson var stigahæstur hjá Hamri með 16 stig, Jerry Hollis skoraði 11 og tók 12 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 9, Bjartmar Halldórsson og Örn Sigurðarson 8, Halldór Gunnar Jónsson 6, Ragnar Nathanaelsson og Hallgrímur Brynjólfsson 3 og Eyþór Heimisson 2.

Möguleikar Hamars á því að fara beint upp í Domino’s-deildina fóru hratt þverrandi í kvöld. Þegar tveimur umferðum er ólokið er Valur með 28 stig, Haukar 26, Hamar 24, Höttur 22 og Þór Akureyri 18 stig. Efsta liðið fer beint upp en fjögur þau næstu fara í umspil um eitt sæti í úrvalsdeildinni.

Fyrri grein„Stuðningsmennirnir voru frábærir“
Næsta greinTvær sýningar opnaðar í dag