Hveragerðisbær og Hamar semja til þriggja ára

Geir Sveinsson bæjarstjóri og Þorsteinn Ragnarsson formaður Hamars undirrita hér samninginn milli Hveragerðisbæjar og Íþróttafélagsins Hamars til þriggja ára.

Nýr samstarfssamningur milli Hveragerðisbæjar og Íþróttafélagsins Hamars var undirritaður á aðalfundi Hamars í síðustu viku.

Megininntak samningsins er tvíþætt og felst annars vegar í rekstrarstyrk til Hamars næstu þrjú árin eða til ársloka 2026 og hins vegar hefur Hveragerðisbær orðið við þeirri ósk Hamars að styðja við launagreiðslur vegna ráðningar framkvæmdastjóra félagsins næstu þrjú árin.

Á gildistíma samningsins mun framkvæmdastjóri félagsins meðal annars vinna að því að Hamar nái viðurkenningunni Fyrirmyndarfélag ÍSÍ, auk þess að halda utan um fjármál og rekstur félagsins.

Rekstarstyrkurinn er til stuðnings við barna- og ungmennastarf, starfsemi meistaraflokka og íþróttasvæði. Einnig er hann hugsaður sem fjárveiting í ferðasjóð og í tækja- og áhaldasjóð. Á árinu 2024 verður beinn fjárstyrkur til félagsins því 24,5 milljónir króna, árið 2025 verður hann 28,5 milljónir og loks verður hann 29,5 milljónir króna árið 2026. Samtals nemur því beinn fjárstyrkur Hveragerðisbæjar til Hamars 82,5 milljónum króna á samningstímanum.

Auk hinna beinu framlaga hefur Hamar til afnota íþróttahúsið við Skólamörk eftir að íþróttakennslu grunnskólans lýkur, Sundlaugina í Laugaskarði og íþróttavelli bæjarins, Hamars- og Grýluvöll. Hveragerðisbær greiðir einnig fyrir aðstöðu til íþróttaiðkunar á Selfossi, í Ölfusi og í Reykjavík samkvæmt samkomulagi hverju sinni, á meðan aðstaðan er takmörkuð í Hveragerði.

Þá má nefna rútuferðir sem Hveragerðisbær sér iðkendum Hamars fyrir til æfinga í Þorlákshöfn, á Selfossi og í Reykjadal. Og bærinn sér líka um að allir iðkendur félagsins séu slysatryggðir við skipulagðar æfingar og keppni á vegum félagsins upp að átján ára aldri.

Fyrri greinGóður árangur hjá ungu liði HSK/Selfoss
Næsta greinSunnlendingar til sóma á Sauðárkróki