Hvatningarverðlaunum fagnað

Haustfundur frjálsíþróttaráðs HSK var haldinn í Selinu í síðustu viku og mættu fulltrúar frá aðildarráðum ráðsins til fundarins, auk stjórnar ráðsins og framkvæmdastjóra HSK.

Í byrjun fundar var lesin upp fundargerð síðasta aðalfundar og fram kom að flest af því sem þar var ákveðið hafi gengið eftir. Engilbert framkvæmdastjóri HSK, sem sér um að bókhald ráðsins í samstarfi við stjórn ráðsins, fór yfir níu mánaða uppgjör ráðsins. Fjárhagsstaða ráðsins er traust og í góðu samræmi við fjárhagsáætlun ráðsins 2016.

Á fundinum var rætt um komandi keppnistímabil, s,s. skipulag héraðsmóta 2017 og starfsmannamál. Fram kom að Meistaramót utanhúss, aðalhluti mun fara fram á sambandssvæðinu næsta sumar og hefur frjálsíþróttaráðið umsjón með framkvæmd mótsins. Á fundinum var skipuð framkvæmdanefnd til að vinna að undirbúningi mótsins.

Nokkuð var rætt um mótin næsta sumar og staðsetningu þeirra. Fundarfólk hafði efasemdir um réttmæti þess að halda MÍ 11-14 ára utanhúss á Egilsstöðum næsta sumar, en sem kunnugt er fer Unglingalandsmót UMFÍ fram á Egilsstöðum um næstu verslunarmannahelgi. Óskað verður eftir því að MÍ 11-14 ára fari ekki fram á sama stað og ungingalandsmót framvegis.

Loks má geta þess að fundarfólk fagnaði því sérstaklega að HSK hafi hlotið hvatningarverðlaun UMFÍ á dögunum, sem og hvatningarverðlaunum Þuríðar Ingvarsdóttur.