Hvatasjóður „Allir með“ styrkir Umf. Selfoss og Suðra

Helgi S. Haraldsson, Valdimar Gunnarsson og Ófeigur Ágúst Leifsson skrifuðu undir samninginn. Ljósmynd: UMFÍ/Jón Aðalsteinn

„Ég hvet alla þjálfara til að taka þessu verkefni með opnum hug, því sigrar barna með fötlun eru gríðarlega stórir,“ sagði Þórdís Bjarnadóttir frá Íþróttafélaginu Suðra við undirritun samstarfssamnings á vegum Hvatasjóðs verkefnisins Allir með við Ungmennafélag Selfoss og Íþróttafélagið Suðra.

Að verkefninu Allir með standa Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Íþróttasamband fatlaðra og þrjú ráðuneyti, þ.e. Mennta- og barnamálaráðuneyti, Heilbrigðisráðuneytið og Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Verkefnið er þriggja ára verkefni sem er liður í að ná markmiðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Skrifað var undir samninginn þann 29. febrúar og pennana munduðu þeir Helgi S. Haraldsson, formaður Ungmennafélags Selfoss, Ófeigur Ágúst Leifsson frá Íþróttafélaginu Suðra, og Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri verkefnisins Allir með.

Í samningnum felst að Hvatasjóðurinn styrkir íþróttastarf fyrir iðkendur með fötlun, félagið skuldbindur sig m.a. til að bjóða að lágmarki upp á eina æfingu í viku í eitt ár fyrir iðkendurna og geta leitað ráðgjafar hjá Íþróttasambandi fatlaðra og Allir með.

Löngu tímabært skref
Helgi Haraldsson taldi samstarfssamninginn afar jákvæðan. „Það er löngu tímabært að horfa til þess hóps. Ég vil trúa því að íþróttahreyfingin hafi verið feimin gagnvart þessum hópi og ekki þorað að taka skrefið. Nú hefur íþróttahreyfingin fengið hvatningu til að gera þetta,“ sagði hann og var þess fullviss að Ungmennafélag Selfoss geti látið verkefnið stækka og dafna.

Aðeins 4% stunda íþróttir
Valdimar Gunnarsson, verkefnisstjóri Allir með, segir að af rúmlega 3.000 börnum með fötlun á Íslandi stundi afar lítill hópur íþróttir eða aðeins 4%. Ljóst sé að fjölga þurfi tækifærum fyrir börn í þessum hópi og gengur verkefni Allir með út á það.

„Börn með fötlun á aldrinum 6 til 16 ára er því eiginlega ekki að finna innan íþróttahreyfingarinnar,“ sagði Valdimar og bætti við að markmiðið væri að breyta því. Valdimar hefur farið víða um land til að kynna verkefnið og Hvatasjóðinn sem nú styrki níu verkefni í nokkrum sveitarfélögum.

Að sögn Valdimars er margt í bígerð í þeim tilgangi að fjölga tækifærum barna með fötlun í íþróttum. Þar á meðal séu Íslandsleikarnir svokölluðu. Það er körfuknattleiks- og knattspyrnumót sem haldið verður 16.-17. mars. Í því felst að hópur barna með fötlun fer í rútu til Akureyrar, iðkendur á Akureyri taka á móti hópnum sem gistir á dýnum í skólum eins og aðrir íþróttahópar.

„Þetta verður keppnisferð með vinum okkar á Akureyri og ég held að verði mikilvægur hluti af starfinu, því það er svo mikilvægt að fólki hafi eitthvað til að hlakka til,“ bætti Valdimar við.

Fjölmenni var viðstatt undirritunina. Ljósmynd: UMFÍ/Jón Aðalsteinn
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og María Sigurjónsdóttir, íþróttakona úr Suðra. Ljósmynd: UMFÍ/Jón Aðalsteinn
Þórdís Bjarnadóttir og Ófeigur Ágúst Leifsson hafa um árabil verið í forsvari og unnið frábært starf fyrir Íþróttafélagið Suðra. Ljósmynd: UMFÍ/Jón Aðalsteinn
Fyrri greinMikilvæg stig í hús
Næsta greinTíu sekúndna selfie með Jóhönnu Guðrúnu