Húllumhæ á Selfossvelli

Selfoss tekur á móti KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli kl. 18 í dag. Fyrir leik verður mikið um að vera á vellinum og mun Sunnlenska m.a. bjóða 120 áskrifendum miða á leikinn.

Slegið verður upp tjaldi við Selið sem opnar kl. 16:30 en þar verður hægt að nálgast miðana auk þess sem boðið verður upp á hressingu.

Kl. 16 hefst fjölskylduhátíð Stuðningsmannaklúbbs Selfoss. Þar er í boði hoppukastali, pylsur og kókómjólk auk þess sem hamborgaragrill stuðningsmannanna verður á sínum stað.

Allir nemendur grunnskólanna á Selfossi hafa fengið boðsmiða á leikinn en Ölgerðin verður með uppákomur á Selfossvelli í dag, m.a. boltaþrautir í hálfleik.

Fyrri greinFróðleg skoðunarferð á Bakkanum
Næsta greinBrúarhlaupið 2012 – Úrslit