Hulda setti Íslandsmet og þrjú HSK öldungamet slegin

Héraðsmót HSK í frjálsum íþróttum fór fram á Selfossi dagana 22. og 23. júní síðastliðinn. Til leiks á mótinu voru skráðir 60 keppendur frá átta félögum.

Hulda Sigurjónsdóttir úr Suðra er í feiknaformi þessa dagana og hún bætti eigið Íslandsmet í sleggjukasti í sínum flokki, kastaði 15,45 metra.

Umf. Selfoss sigraði mótið með yfirburðum eða 215 stigum. Jöfn að stigum í öðru og þriðja sæti urðu Umf. Þór í Þorlákshöfn og Íþrf. Garpur sem hvort um sig fengu 86 stig. Á mótinu voru einnig veitt sérverðlaun fyrir stigahæsta karl og konu mótsins. Stigahæsta konan varð landsliðskonan Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, með 36 stig og stigahæsti karl varð nýliðinn Sverrir Heiðar Davíðsson, Umf. Selfoss, sem var að keppa á sínu fyrsta móti og uppskar 29 stig.

Þrjú HSK öldungamet voru sett á mótinu. Guðmann Óskar Magnússon úr Dímon setti tvö met í flokki 45 – 49 ára. Hann hljóp 800 metra hlaup á 2:36,52 mín. og bætti þar met Markúsar Ívarssonar. Guðmann stökk svo 2,55 metra í stangarstökki og bætti metið sem bróðir hans Ólafur Elí átti. Þá bætti Guðmundur Nikulásson úr Dímon met Þórs Vigfússonar í 800 metra hlaupi í flokki 50-55 ára. Guðmundur hljóp á 2;39,00 mín.

Samhliða héraðsmótinu fór fram Héraðsmót fatlaðra í frjálsum íþróttum en þar mættu fimm keppendur til leiks. Heildarúrslit eru á www.fri.is.

Fyrri greinLandsmót 50+ í Hveragerði 2017
Næsta greinEinstaklega vel heppnuð afmælisveisla