Hulda bætti Íslandsmetið í kúluvarpi

Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum fullorðinna, var haldið í Kaplakrika í Hafnarfirði um síðustu helgi. HSK/SELFOSS sendi sjö keppendur til leiks sem stóðu sig með miklum ágætum.

Styrmir Dan Steinunnarson úr Þór í Þorlákshöfn gerði góða hluti að vanda. Hann varð annar í hástökki karla með næstbesta stökkið sitt frá upphafi þegar hann vippaði sér nokkuð léttilega yfir 1,97 m Styrmir átti svo góðar tilraunir við 2,00 m og er ekki spurningin um hvort, heldur hvenær hann dettur yfir þá hæð. Í stangarstökkinu karla bætti Stymir Dan sig um 10 cm þegar hann vippaði sér yfir 3,30 m en Styrmir er rétt að byrja í stönginni. Hann keppti svo einnig í langstökki.

Thelma Björk Einarsdóttir Selfoss, stóð stig vel í kúluvarpi og kastaði sitt annað lengsta kast á ferlinum er hún varpaði kúlnni 11,31 m og nældi sér í bronsverðlaun.

Þá varpaði Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir Suðra, kúlunni 9,42 m og setti Íslandsmet í sínum fötlunarflokki, glæsilegt hjá henni og Eyrún Halla Haraldsdóttir Selfossi kastaði svo 9,13 m.

Í 400 m hlaupi karla varð Kristinn Þór Kristinsson Samhygð fjórði á næst besta tíma sínum frá upphafi, 50,17 sek. en hafði hlaupið á 49,78 sek. helgina á undan. Kristinn er svo á leiðinni á Norðurlandameistaramót fullorðinna um næstu helgi þar sem hann keppir í 800 m hlaup og freistar þess að ná lágmarki fyrir Evrópumeistaramótið innanhúss, en það er: 1:50,80 mín.

Harpa Svansdóttir Selfossi kepptí í þrístökki þar sem hún varð sjötta með 10,02 m og í langstökki með stökk upp á 4,68m. Að lokum kastaði Ólafur Guðmundsson 12,17 m í kúlu sem er bæting á eigin HSK meti um 10 sentimetra í hans aldursflokki.

Fyrri greinFjörugir fjáröflunartónleikar og leynigestur
Næsta greinÁrvirkinn og Öryggismiðstöðin buðu best