„Hugurinn í Selfyssingum höfðar til mín“

Auðun Helgason segir það rökrétt skref að hefja þjálfunarferilinn sem aðstoðarþjálfari. Hann á von á að læra mikið af Loga Ólafssyni.

Auðun skrifaði í dag undir eins árs samning við Selfossliðið og verður spilandi aðstoðarþjálfari. Mörg lið höfðu samband við Auðun þegar hann tilkynnti að hann væri hættur hjá Grindavík í haust en hann var spenntastur fyrir Selfossliðinu.

„Ég er búinn að liggja yfir þessu í einhverja tíu daga. Logi nefndi það að hann vildi fá mig sem aðstoðarþjálfara og mér fannst það mjög spennandi og þegar ég ræddi svo við stjórnarmennina í framhaldinu þá fannst mér þetta allt koma heim og saman,“ sagði Auðun í samtali við sunnlenska.is þegar blekið var nýþornað á samningnum.

„Ég er að ljúka lögfræðinámi í vor og ef ég stend mig vel og útskrifast með sóma þá gæti það gæti hugsast að ég fari að starfa með Óskari Sigurðssyni [formanni knattspyrnudeildarinnar] á hans stofu og það skiptir mig líka miklu máli.

Það er samt fyrst og fremst þessi mikli hugur hjá félaginu að ætla beint upp aftur sem höfðar til mín. Ég þekki Loga vel og sömuleiðis Markus Kislich sem er að koma hingað sem sjúkraþjálfari. Ég hef unnið mikið með honum og hann ætti að skila mér öflugum inn í næsta tímabil. Ég veit að það er fullt af öflugum strákum hérna en því miður náði liðið ekki að halda sér uppi í sumar. Það vantaði kannski reynslu og yfirvegun sem ég ætti að geta komið með þannig að það er klárlega spennandi fyrir mig að koma hingað. Ég ætla að koma mér í gott stand og fara beint upp með þessu öfluga liði.“

Auðun segir það rétta skrefið að hefja þjálfaraferilinn sem aðstoðarþjálfari en hann geti sömuleiðis ennþá bætt sig sem leikmann. „Mín framtíðarplön eru að fara út í þjálfun ef sá möguleiki gefst. Núna bauðst mér að koma inn sem aðstoðarþjálfari og mér fannst það rökrétt skref í stað þess að hoppa beint út í það að vera aðalþjálfari einhversstaðar. Ég veit að ég get lært helling af Loga og um leið bætt mig sem leikmann og persónu. Þannig að þegar ég fór að hugsa þetta þá fannst mér þetta mest spennandi kosturinn. Mér bauðst að fara í úrvalsdeildarklúbb en ég tók frekar 1. deildina á Selfossi. Hér er frábær aðstaða, nýr völlur og menn eru samtaka í starfinu. Það er mikið af öflugum strákum í kringum liðið, öflugur þjálfari og sjúkraþjálfari og svo mun mín reynsla alveg klárlega nýtast.“

Auðun er 36 ára en hann sýndi engin ellimerki með Grindavíkurliðinu í sumar þar sem hann lék 21 leik í hjarta varnarinnar. „Nei, það er ekki neinn bilbug á mér að finna. Ég hugsa vel um mig en það er fyrst og fremst Markus að þakka. Selfyssingarnir eru að fá öflugan mann þar. Það er vont að vinna með honum, sem er gott. Hann lætur menn taka vel á því og menn komast ekkert upp með að stytta sér leið í þeim efnum. Ef við æfum vel og gerum það sem þjálfararnir leggja fyrir þá verðum við í hörkubaráttu næsta sumar. Það er alveg ljóst,“ sagði Auðun að lokum.

Fyrri greinHarður árekstur á Selfossi
Næsta greinDramatískur sigur FSu