Hugrún Birna með gull á Reykjavíkurleikunum

Hugrún Birna Hjaltadóttir með verðlaun sín á Reykjavíkurleikunum. Ljósmynd/UMFS

Selfyssingar náðu góðum árangri á frjálsíþróttamóti Reykjavíkurleikanna, alþjóðlegu móti sem haldið var í Laugardalshöllinni um síðustu helgi. Mótið er boðsmót og er sterkustu frjálsíþróttamönnum landsins boðin þátttaka. Fimm keppendum frjálsíþróttadeildar Selfoss var boðið að taka þátt í mótinu að þessu sinni.

Hin stórefnilega Hugrún Birna Hjaltadóttir stóð sig frábærlega þegar hún sigraði í 600 m hlaupi í flokki 15 ára og yngri. Hún hljóp á 1:49,82 mín. Bryndís Embla Einarsdóttir keppti einnig í hlaupinu og varð í 6. sæti á tímanum 1:54,04 mín.

Hinn fjölhæfi Hjálmar Vilhelm Rúnarsson endaði í 2. sæti í 600 m hlaupi 15 ára og yngri á tímanum 1:33,84 mín og munaði sjónarmun á honum og sigurvegaranum. Hjálmar hljóp síðan 60 m hlaup á tímanum 7,89 sek og varð í 4.sæti.

Eydís Arna Birgisdóttir sem er aðeins 16 ára gömul keppti í 400 m hlaupi kvenna, langyngst allra keppenda. Hún endaði í 5. sæti á tímanum 62,19 sek og er einungis tímaspursmál hvenær hún bætir HSK met Sólveigar Helgu Guðjónsdóttir í flokki 16-17 ára sem er 61,39 sek frá árinu 2013.

Þá tók Daníel Breki Elvarsson þátt í hástökkskeppni karla og vippaði sér yfir 1,75 m og endaði í 3. sæti. Daníel Breki er mjög fjölhæfur og tekur þátt í hlaupum, stökkum og köstum með góðum árangri.

Fyrri greinSkólahreystilið Flóaskóla íþróttamenn ársins 2022
Næsta greinNý markamaskína á Selfoss