HSK/Selfoss vann með fáheyrðum yfirburðum

HSK/Selfoss vann um helgina stórsigur á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum fyrir keppendur 11 – 14 ára. Liðið fékk í heildina 808,08 stig en næsta lið (FH) var með 420 stig.

Aldrei hefur sigurlið á meistaramóti innanhúss fengið jafnmörg stig, né unnið með jafnmiklum mun. Mikla athygli vakti á mótinu hversu gríðarlega stór og samstilltur hópurinn er en samtals var 81 keppandi frá félaginu.

Keppt er í átta flokkum á mótinu og urðu HSK/SELFOSS Íslandsmeistarar í fjórum flokkum og í 2. eða 3. sæti í hinum flokkunum en alls kepptu 15 félög á mótinu:

Piltar 11 ára urðu í 3.sæti.

Piltar 12 ára urðu Íslandsmeistarar.

Piltar 13 ára eru í algjörum sérflokki á þessu móti og urðu Íslandsmeistarar með 222 stigum en næsta félag var með 43 stig.

Piltar 14 ára urðu í 2.sæti 30 stigum á eftir því fyrsta.

Stúlkur 11 ára urðu í 2. sæti.

Stúlkur 12 ára urðu Íslandsmeistarar, 44 stigum á undan þeim næstu.

Stúlkur 13 ára urðu Íslandsmeistarar með 40 stiga forystu.

Stúlkur 14 ára urðu í 2. sæti.

Í einstökum greinum unnu krakkarnir svo 12 Íslandsmeistaratitla, 17 silfurverðlaun og 16 bronsverðlaun. Þá settu krakkarnir fjögur HSK met:

Íslandsmeistarar urðu:

Hákon Birkir Grétarsson, 13 ára, í hástökki með 1,62m, 60 m hlaupi á 8,47 sek og í 60m grind á 9,92 sek (PB)

Bríet Bragadóttir, 13 ára, í 60m hlaupi á 8,62 sek (PB) og í 60m grind á 10,60 sek (PB).

Hildur Helga Einarsdóttir, 13 ára, í kúluvarpi með 10,95 m.

Solveig Þóra Þorsteinsdóttir, 13 ára, í langstökki með 4,90 m (PB) og HSK met.

Vilhelm Freyr Steindórsson, 13 ára, í kúluvarpi með 12,14 m (PB).

Dagur Fannar Einarsson, 13 ára, í 800m hlaupi á 2:34,35 mín (PB)

Sindri Ingvarsson, 14 ára, í kúluvarpi með 11,29m (PB).

Stúlkur 12 ára í 4×200 m hlaupi á 2:03,80 mín sem er HSK met. Í sveitinni voru Birta Sigurborg Úlfarsdóttir, Eva María Baldursdóttir, Una Bóel Jónsdóttir og Sigrúnn Tinna Björnsdóttir.

Piltar 13 ára í 4×200 m hlaupi á 1:57,99 mín og bættu um leið HSK metið um fjórar sek. Hákon Birkir Grétarsson, Kolbeinn Loftsson, Máni Snær Benediktsson og Dagur Fannar Einarsson voru í sigursveitinni.

Stúlkur 13 ára bættu svo einnig HSK metið um fjórar sek í 4x200m hlaupi, þær hlupu á 1:59.93 mín. Sólveig Þorsteinsdóttir, Valgerður Einarsdóttir, Lilja Ósk Atladóttir og Bríet Bragadóttir voru í sveitinni.

Stórglæsilegur árangur hjá þessum efnilegu krökkum en þau unnu einnig til fjölda silfur og bronsverðlauna. Mjög spennandi verður að fylgjast með þeim í framtíðinni og fyrir áhugasama er hægt að skoða úrslit mótsins inni á www.thor.fri.is.

Fyrri greinSveitarfélagið styrkir Sleipni um húshitunarkostnað
Næsta greinGísli ekki lengur Barón