HSK/Selfoss vann allt sem hægt var að vinna

Lið HSK/Selfoss sigraði með gríðarlegum yfirburðum í stigakeppni Meistaramóts Íslands 11-14 ára í frjálsum íþróttum sem haldið var á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum um síðustu helgi.

HSK/Selfoss sendi 47 keppendur til leiks og komu þeir hlaðnir góðmálmum til baka auk þess sem fjöldi góðra persónulegra bætinga leit dagsins ljós. Alls bættu liðsmenn HSK/Selfoss sinn besta árangur 134 sinnum.

HSK/Selfoss fékk 1136,5 stig í heildarstigakeppninni en þar á eftir kom Fimleikafélag Hafnarfjarðar með 362 stig. Lið Ungmennafélagsins Kötlu í Mýrdal vakti mikla athygli á mótinu og var lengi vel í 5. sæti heildarstigakeppninnar en seig niður í 7. sætið þegar keppt var í boðhlaupum á síðari degi mótsins, þar sem félaginu tókst ekki að tefla fram boðhlaupssveitum sökum fámennis. Mýrdælingar skutu þó mörgum stórum félögum ref fyrir rass í stigakeppninni.

Á mótinu er stigakeppni í öllum aldursflokkum karla og kvenna og er skemmst frá því að segja að HSK/Selfoss vann stigakeppnina í öllum flokkum, yfirleitt af miklu öryggi.

Hér að neðan eru taldir upp allir meistaratitlarnir sem krakkarnir á sambandssvæði HSK unnu.

14 ára piltar
Sebastian Þór Bjarnason fór heim hlaðinn verðlaunum en hann vann sex Íslandsmeistaratitla í flokki 14 ára pilta. Sebastian sigraði í 100 m hlaupi, langstökki, kúluvarpi, spjótkasti og 80 m grindahlaupi þar sem hann bætti sinn besta árangur og hljóp á 12,49 sek. Hann var einnig í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi. Með honum í sveitinni voru Goði Gnýr Guðjónsson, Haukur Arnarsson og Sæþór Atlason. Brynjar Logi Sölvason varð Íslandsmeistari í hástökki í þessum sama flokki.

14 ára stúlkur
Guðný Vala Björgvinsdóttir varð Íslandsmeistari í langstökki, þar sem hún bætti sinn besta árangur og stökk 4,61 m.

13 ára piltar
Rúrik Nikolai Bragin varð Íslandsmeistari í spjótkasti en hann sigraði með yfirburðum og kastaði 41,50 m. Þá varð sveit HSK/Selfoss Íslandsmeistari í 4×100 m boðhlaupi en sveitina skipuðu Tómas Þorsteinsson, Daði Kolviður Einarsson, Elías Karl Heiðarsson og Einar Breki Sverrisson.

13 ára stúlkur
Karólína Helga Jóhannsdóttir varð Íslandsmeistari í 80 m grindahlaupi á nýju héraðsmeti, 13,49 sek. Hún var einnig í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi en með henni í sveitinni voru Eyrún Hjálmarsdóttir, Rebekka Georgsdóttir og Árbjörg Sunna Markúsdóttir.

12 ára piltar
Veigar Þór Víðisson varð fjórfaldur Íslandsmeistari en hann sigraði í hástökki, kúluvarpi og spjótkasti þar sem hann bætti sig og kastaði 28,22 m. Auk þess var Veigar Þór í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi. Með Veigari voru í sveitinni þeir Þórbergur Egill Yngvason, Daníel Breki Elvarsson og Eyþór Birnir Stefánsson.

12 ára stúlkur
Álfrún Diljá Kristínardóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi og Þórhildur Arnarsdóttir varð Íslandsmeistari í hástökki þegar hún jafnaði sinn besta árangur og stökk 1,26 m. Hún var einnig í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi en auk hennar voru í sveitinni Ásdís Mjöll Benediktsdóttir, Katrín Zala Sigurðardóttir og Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir. Boðhlaupið var æsispennandi en sveit HSK varð 0,06 sekúndum á undan sveit Ungmennafélags Akureyrar.

11 ára piltar
Kristófer Árni Jónsson fór mikinn í þessum flokki og varð þrefaldur Íslandsmeistari, sigraði í 600 m hlaupi, kúluvarpi og spjótkasti og bætti sinn besta árangur í tveimur síðasttöldu greinunum.

Kötlukrakkar fóru á kostum
Keppendur frá Ungmennafélaginu Kötlu fóru mikinn á mótinu og náðu eftirtektarverðum árangri þrátt fyrir að vera með fáa keppendur. Stephanie Ósk Ingvarsdóttir varð fjórfaldur Íslandsmeistari í flokki 11 ára stúlkna. Hún sigraði í 60 m hlaupi, langstökki, kúluvarpi og hástökki þar sem hún gerði sér lítið fyrir og setti nýtt mótsmet, stökk 1,43 sm.

Lára Hlín Kjartansdóttir náði sömuleiðis í Íslandsmeistaratitil í spjótkasti 11 ára stúlkna, kastaði 17,33 m.

Þrístökk á heimavelli Vilhjálms
Samhliða meistaramótinu fór fram þrístökkskeppni Vilhjálms Einarssonar, sem var viðeigandi þar sem Vilhjálmsvöllur á Egilsstöðum er heimavöllur silfurmannsins frá Ólympíuleikunum í Melbourne 1956. Keppt var í öllum aldursflokkum í þessari grein og komust sunnlensku krakkarnir iðulega á verðlaunapall.

Kristófer Árni Jónsson hlaut silfur í flokki 11 ára, Veigar Þór Víðisson sigraði í flokki 12 ára, Daði Kolviður Einarsson hlaut silfur í flokki 13 ára eftir sentimetraslag við Rúrik Nikolai Bragin sem fékk bronsið og í flokki 14 ára vann HSK/Selfoss þrefaldan sigur. Sebastian Þór Bjarnason sigraði og Sæþór Atlason varð annar, en báðir stukku þeir 11,26 m. Haukur Arnarsson varð þriðji.

Hjá stúlkunum sigraði Stephanie Ósk Ingvarsdóttir í flokki 11 ára og í flokki 14 ára varð Guðný Vala Björgvinsdóttir önnur og Hrefna Sif Jónasdóttir þriðja.


Sigurlið HSK/Selfoss ásamt Vilhjálmi Einarssyni, sem afhenti verðlaunin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Stephanie Ósk Ingvarsdóttir, Kötlu, sigraði í hástökki á nýju mótsmeti 1,43 m. Önnur var Jónína Linnet, FH og þriðja Ísold Assa Guðmundsdóttir, HSK/Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Karólína Helga Jóhannsdóttir setti nýtt HSK met í 80 m grindahlaupi 13 ára stúlkna, hljóp á 13,49 sek. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Rúrik Nikolai Bragin bíður eftir mælingu í spjótkasti þar sem hann sigraði og var mjög nálægt sínu besta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Brynjar Logi Sölvason varð Íslandsmeistari í hástökki 14 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Álfrún Diljá Kristínardóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi 12 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur KarlKristófer Árni Jónsson var kominn með tvö gull um hálsinn á laugardeginum og eitt bættist við á seinni keppnisdeginum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Þrefaldur sigur HSK/Selfoss í kúluvarpi 12 ára pilta. Veigar Þór með gull, Daníel Breki silfur og Þórbergur Egill brons. Hreinn Halldórsson, fyrrverandi Evrópumeistari í kúluvarpi, afhenti verðlaunin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sunnlenskur verðlaunapallur í spjótkasti 13 ára pilta. (F.v.) Sebastian Már Ingvarsson, Kötlu, með silfur og Selfyssingarnir Rúrik Nikolai og Einar Breki með gull og brons. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sunnlenskur verðlaunapallur í spjótkasti 11 ára stúlkna. (F.v.) Rebekka Öxndal Ingibjörnsdóttir, HSK/Selfoss, með silfur, Íslandsmeistarinn Lára Hlín Kjartansdóttir, Kötlu, og Ísold Assa Guðmundsdóttir, HSK/Selfoss, með bronsið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sebastian Þór Bjarnason (annar frá vinstri) varð sexfaldur Íslandsmeistari í flokki 14 ára pilta. Hér er hann með félögum sínum í boðhlaupssveitinni (f.v.) Haukur Arnarsson, Sebastian Þór, Goði Gnýr Guðjónsson og Sæþór Atlason. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sigurlið HSK/Selfoss í stigakeppni 11 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sigurlið HSK/Selfoss í stigakeppni 11 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Daníel Breki Elvarsson var einn eftir í sigurliði HSK/Selfoss í stigakeppni 12 ára pilta þegar kom að verðlaunaafhendingunni. Ljósmynd/Þuríður Ingvarsdóttir


Sigurlið HSK/Selfoss í stigakeppni 12 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sigurlið HSK/Selfoss í stigakeppni 13 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sigurlið HSK/Selfoss í stigakeppni 13 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sigurlið HSK/Selfoss í stigakeppni 14 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sigurlið HSK/Selfoss í stigakeppni 14 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Þjálfararnir Guðbjörg Viðarsdóttir, Þuríður Ingvarsdóttir og Hildur Helga Einarsdóttir voru ánægðar með uppskeru helgarinnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinRangæingar komnir á botninn
Næsta greinEitthvað fyrir alla á Landsmóti hestamanna