HSK vann sex verðlaun í kúluvarpi

Aðildarfélög HSK áttu 43 keppendur á Stórmóti ÍR sem haldið var Laugardalshöllinni um liðna helgi. Uppskeran var 15 gull, 12 silfur og 10 brons, eitt HSK-met og fullt af persónulegum metum.

Keppt var í öllum aldursflokkum. Krakkar 10 ára og yngri kepptu í svokölluðum Krakkafrjálsum, en það er þrautabraut sem samanstendur af 6-10 þrautum þar sem líkt er eftir hreyfingum úr hefðbundnum frjálsíþróttagreinum. Keppt var í 10-12 krakka hópum og vann hópurinn saman í að safna stigum, þar sem allir fengu svo verðlaunapening í lokin. Selfoss átti þar tíu keppendur og Laugdælir einn.

11 ára flokkur:
Þar varð Helga Margrét Óskarsdóttir frá Selfossi önnur í langstökki með góðri bætingu, 3,69 m, og í 60 m hlaupi á 9,58 sek.

12 ára flokkur:
Stefán Narfi Bjarnason, Baldri, keppti í nokkrum greinum og varð ofarlega í þeim öllum. Bestur varð árangur hans í kúluvarpinu, en hann gerði sér lítið fyrir og sigraði með 7,39 m kasti.

Guðbjörg María Onnoy, Laugdælum, fylgdi svo eftir góðum árangri hjá piltunum þegar hún varð önnur í kúlunni er hún kastaði 8,34 m.

13 ára flokkur:
Styrmir Dan Steinunnarson, Þór Þorlákshöfn, var eini HSK-keppandinn í þessum flokki, en hann átti frábært mót og rakaði inn sex verðlaunum. Hann sigraði í kúluvarpi er hann kastaði 12,25 m sem er bæting um tæpan meter, 60 m grindahlaupið á sekúndu bætingu, tíminn 10,14 sek og í hástökki er hann vippaði sér yfir 1,60 m. Hann tók svo silfur í 60 m hlaupinu á 8,64 sek, langstökki með 4,82 m og 200 m hlaupi á 28,50 sek sem er stórbæting.

Halla María Magnúsdóttir og Harpa Svansdóttir, Selfossi, voru öflugar að vanda og unnu ellefu verðlaun samtals. Halla sigraði í fjórum greinum, 60 m hlaupi á 8,51 sek, sem er bæting um 1,2 sek, 60 m grindahlaupi á 10,76 sek, en þar varð Harpa önnur á 10,82 sek, 200 m hlaupi á 28,80 sek þar sem Harpa varð þriðja á 29,29 sek, og svo kúluvarpi með 11,74 sek. þar sem Harpa átti annað lengsta kastið. Halla varð svo þriðja í langstökki á bætingu er hún sveif 4,52 m. Það var hinsvegar Harpa sem kom sá og sigraði þar með glæsilegu 4,73 m stökki. Harpa sigraði einnig í hástökki með því að vippa sér yfir 1,40 m. Að auki fékk Harpa brons í 600 m hlaupinu á tímanum 1:51,00 mín.

14 ára flokkur:
Teitur Örn Einarsson, Selfossi, landaði fjórða gullinu í kúluvarpi hjá HSK með því að varpa kúlunni 10,64 m, einum sm lengra en félagi hans Sveinbjörn Jóhannesson, Laugdælum, sem varð annar. Teitur kom svo annar í mark í 800 m hlaupi á rúmlega sekúndu bætingu á tímanum 2:29,75 mín.

Dagný Lísa Davíðsdóttir, Selfossi, stóbætti sig í 60 m grindahlaupi. Hún kom þriðja í mark á tímanum 10,24 sek.

15 ára flokkur:
Sigþór Helgason, Selfossi, stóð sig frábærlega á mótinu. Hann setti HSK-met í 60 m grindahlaupi í flokki 15 ára er hann hljóp á 9,08 sek og vann þriðju verðlaun. Hann sigraði í langstökki með 5,68 m sem er bæting um 41 sm. Hann sigraði einnig í kúluvarpi er hann bætti sinn besta árangur um 39 sm og kastaði 13,37 m. Að lokum sigraði hann í þrístökki er hann stökk 11,52 m. Sigþór fékk að auki silfurverðlaun í hástökki fyrir að stökkva 1,60 m og bronsverðlaun í 60 m hlaupi er hann hljóp vegalengdina á 7,91 sek.

Elínborg Anna Jóhannsdóttir, Laugdælum, keppti í nokkrum greinum og komst á pall í þrístökki með því að fara í fyrsta sinn yfir 10 metrana er hún stökk 10,20 m og brons var staðreynd.

16-17 ára flokkur:
Eva Lind Elíasdóttir, Þór Þorlákshöfn, mætti sterk til leiks í kúluvarpinu ásamt Thelmu Björk Einarsdóttur úr Selfoss. Eva kastaði 13,08 m og sigraði. Thelma var ekki langt undan þegar hún, með 63 sm bætingu, rauf í fyrsta sinn 12 metra múrinn og kastaði 12,29 m. Sólveig Helga Guðjónsdóttir, Selfossi, sigraði svo í 800 m hlaupi í flokki 16-17 ára á tímanum 2:41,49 mín.

Fullorðinsflokkur:
Þessi flokkur var skipaður fjórum körlum og einni konu og karlarnir náðu allir á pall. Ólafur Guðmundsson, Laugdælum, varð annar í kúluvarpi með 13,23 m kasti. Hann sigraði í 60 m grindahlaupi á 8,87 sek þar sem Hreinn Heiðar Jóhannsson, einnig úr Laugdælum, varð þriðji á 9,44 sek. Hreinn varð svo þriðji í hástökki með 1,95 m sem er jafnhátt og fyrsta og annað sætið.

Spretthlauparinn Haraldur Einarsson Vöku varð annar í 60 m hlaupi, aðeins einu broti frá sigri er hann rann skeiðið á 7,22 sek sem er ekki langt frá hans besta. Þeir Haraldur og Bjarni Már Ólafsson, einnig úr Vöku, tóku svo silfur og brons í þrístökki, Haraldur með 13,61 m og Bjarni Már með 13,47 m.