Lið HSK/Selfoss varði um helgina Íslandsmeistaratitil félagsliða í frjálsum íþróttum 15-22 ára. Meistaramót Íslands 15-22 ára fór fram á ÍR-vellinum í Breiðholti.
HSK/Selfoss sigraði heildarstigakeppnina með 423 stig en ÍR varð í 2. sæti með 372,5 stig. HSK/Selfoss vann sömuleiðis stigakeppnina í piltaflokkum 16-17 ára og 18-19 ára og í flokki 15 ára stúlkna og 18-19 ára stúlkna.
Alls unnu keppendur HSK/Selfoss 23 gullverðlaun, 24 silfurverðlaun og 22 bronsverðlaun. Þá vann Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu tvenn gullverðlaun í flokki 18-19 ára pilta þannig að Sunnlendingar komu heim með samtals 25 Íslandsmeistaratitla í einstökum greinum.

Anna Metta setti mótsmet
Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, setti mótsmet í þrístökki í flokki 15 ára stúlkna þegar hún stökk 11,53 m. Hún bætti um leið átta ára gamalt héraðsmet Evu Maríu Baldursdóttur, Umf. Selfoss, í þessum aldursflokki um 11 sm. Anna Metta vann sigur í sex greinum á mótinu um helgina.
Kristján Kári Ólafsson, Umf. Selfoss, sigraði í sleggjukasti 16-17 ára pilta og tvíbætti eigið HSK met í greininni sem hann setti fyrir mánuði síðan á Selfossvelli. Kristján Kári byrjaði á því að bæta sig um 3,03 m og kastaði 50,82 m og hann bætti svo um betur og kastaði 51,36 m.

Þá setti sveit HSK/Selfoss þrjú héraðsmet í 4×400 m blönduðu boðhlaupi en í þeirri grein skipa tvær stúlkur og tveir piltar sveitina. Sveit HSK/Selfoss varð í 3. sæti í flokki 20-22 ára á tímanum 4:05,48 mín. Elsti keppandinn í sveitinni er 18 ára gamall og því var hér um að ræða héraðsmet í flokkum 18-19 ára, 20-22 ára og karla/kvennaflokki. Sveitina skipuðu þau Daníel Smári Björnsson, Adda Sóley Sæland, Ívar Ylur Birkisson og Hugrún Birna Hjaltadóttir. Þau bættu fyrra HSK met um 28,65 sekúndur.