HSK/Selfoss varði Íslandsmeistaratitilinn

Íslandsmeistaralið HSK/Selfoss. Ljósmynd/FRÍ

Lið HSK/Selfoss vann glæsilegan sigur, annað árið í röð, á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum 15-22 ára sem haldið var á nýja ÍR-vellinum í Breiðholti um síðustu helgi.

HSK/Selfoss hlaut 334 stig í heildarstigakeppninni en heimamenn í ÍR komu næstir með 286,5 stig. HSK/Selfoss vann stigabikarinn í tveimur aldursflokkum, flokki 16-17 ára pilta og flokki 15 ára stúlkna.

Martin Patryk Srichakham varð þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 16-17 ára. Hann sigraði í 400 m grindahlaupi og 800 m hlaupi, auk þess sem hann var í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi. Með honum í sveitinni voru Oliver Jan Tomczyk, Olgeir Otri Engilbertsson og Daníel Breki Elvarsson. Daníel Breki bætti svo öðrum titli í safnið þegar hann sigraði í spjótkasti 16-17 ára.

Ásta Dís Ingimarsdóttir varð fjórfaldur Íslandsmeistari. Hún sigraði í 800 og 1.500 m hlaupi 15 ára stúlkna og var auk þess í boðhlaupssveitum HSK/Selfoss í 4×100 m hlaupi 15 ára og 4×400 m hlaupi 20-22 ára. Með henni í 15 ára sveitinni voru Katrín Eyland Gunnarsdóttir, Ísold Assa Guðmundsdóttir og Eydís Arna Birgisdóttir. Þær Ísold og Eydís létu ekki þar við sitja heldur unnu báðar tvo Íslandsmeistaratitla til viðbótar í flokki 15 ára, Eydís í 300 m hlaupi og 300 m grindahlaupi og Ísold í þrístökki og stangarstökki. Sveit HSK/Selfoss í 4×400 m boðhlaupi 20-22 ára var skipuð þeim Ástu Dís, Katrínu Eyland, Erlín Kötlu Hansdóttur og Rebekku Georgsdóttur.

Þá varð Viktor Karl Halldórsson varð Íslandsmeistari í spjótkasti 20-22 ára, Rökkvi Þeyr Guðjónsson Íslandsmeistari í sleggjukasti 15 ára pilta og Álfrún Diljá Kristínardóttir Íslandsmeistari í sleggjukasti 16-17 ára stúlkna.

Auk þess unnu keppendur HSK/Selfoss fjölda silfur- og bronsverðlauna en liðsmenn HSK/Selfoss fóru 49 sinnum á verðlaunapall og margir náðu góðum bætingum í góðri aðstöðu á nýja vellinum í Breiðholtinu.

Ungmennafélagið Katla í Mýrdal átti líka sinn fulltrúa á mótinu. Egill Atlason Waagfjörð varð tvöfaldur Íslandsmeistari, hann sigraði í 1.500 m og 3.000 m hlaupi pilta 16-17 ára og náði auk þess í silfrið í þrístökki.

Egill Atlason Waagfjörð efstur á palli í 3.000 m hlaupi ásamt Daníel Breka Elvarssyni og Martin Patryk Srichakham úr HSK/Selfoss. Ljósmynd/Katla
Fyrri greinDýpkun undir brúnni dugði til
Næsta greinEnginn tertubotnaskortur á Selfossi