HSK/Selfoss sigraði MÍ 11-14 ára á heimavelli

Sigurlið HSK/Selfoss í mótslok. Ljósmynd/HSK

Lið HSK/Selfoss sigraði með yfirburðum á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára sem haldið var á Selfossvelli um síðustu helgi.

HSK/Selfoss hlaut 933 stig í heildarstigakeppninni og næsta lið þar á eftir var FH með 573,5 stig. HSK/Selfoss vann einnig stigakeppnina í flokkum 11 ára stúlkna, 13 ára stúlkna og 14 ára stúlkna og Ungmennafélagið Katla gerði sér lítið fyrir og sigraði í flokki 12 ára pilta.

Þrefaldur sigur HSK í kringlukasti 13 ára, f.v. Anna Metta, Adda Sóley og Þórunn Eyland. Ljósmynd/HSK

Góð keppni var á mótinu en sautján mótsmet voru sett og þar af voru fimm þeirra sett af keppendum HSK/Selfoss. Sex HSK met féllu á mótinu.

Í flokki 13 ára stúlkna bætti Bryndís Halla Ólafsdóttir héraðsmetið og setti mótsmet í 300 m hlaupi þegar hún hljóp á 46,62 sek. Hún bætti einnig metið í 2000 m þegar hún hljóp hringina fimm á 8:25,44 mín. Í 13 ára flokknum bætti Anna Metta Óskarsdóttir HSK-metið í þrístökki og setti mótsmet þegar hún stökk 10,59 m en gamla metið átti Eva María Baldursdóttir 10,56 m.

Í flokki 14 ára stúlkna bætti Helga Fjóla Erlendsdóttir HSK-metið í 80m grindahlaupi þegar hún hljóp á 12,92 sek og Helga Fjóla setti sömuleiðis mótsmet í þrístökki 14 ára, stökk 10,55 m. Bryndís Embla Einarsdóttir sigraði í spjótkasti 14 ára stúlkna með kasti uppá 45,36 m sem er nýtt HSK met í flokknum og sömuleiðis mótsmet og Bryndís Embla setti einnig mótsmet í kringlukasti, kastaði 35,37 m.

Þá bætti sveit HSK/Selfoss HSK-metið í blönduðu boðhlaupi 12 ára á tímanum 66,02 sek. Sveitina skipuðu þau Hróbjartur Vigfússon, Elísabet Freyja Elvarsdóttir, Eðvar Eggert Heiðarsson og Ásta Kristín Ólafsdóttir.

Starfsmenn stóðu sig frábærlega um helgina. Hér má sjá starfsmenn í kriglukasti fyrsta keppnisdaginn. Ljósmynd/HSK

Sunnlendingar unnu sextán Íslandsmeistaratitla á mótinu. Í 12 ára flokki sigraði Ásta Kristín í hástökki og Ingólfur Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, í spjótkasti.

Í flokki 13 ára varð Bryndís Halla Íslandsmeistari í 300 m hlaupi og 2000 m hlaupi, Anna Metta varð Íslandsmeistari í hástökki og þrístökki með 10,59, Adda Sóley Sæland sigraði í spjótkasti og kringlukasti og sveit HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari í 4×100 m boðhlaupi.

Í flokki 14 ára stúlkna varð Helga Fjóla Íslandsmeistari í 80m grindahlaupi, í 80m hlaupi og þrístökki og Bryndís Embla varð Íslandsmeistari í hástökki, kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti.

Sigurlið HSK/Selfoss í flokki 11 ára stelpna. Ljósmynd/HSK
Sigurlið HSK/Selfoss í flokki 13 ára stelpna. Ljósmynd/HSK
Sigurlið HSK/Selfoss í flokki 14 ára stelpna. Ljósmynd/HSK
Fyrri greinGjaldskrá sundlaugarinnar á Borg ólögleg
Næsta greinTólf sækja um starf fjármálastjóra Árborgar