HSK/Selfoss sigraði með yfirburðum á MÍ 15-22 ára

Hluti liðsmanna HSK/Selfoss fagnar sigri í Kópavoginum í gær. Ljósmynd/Þuríður Ingvarsdóttir

Lið HSK/Selfoss varð um helgina Íslandsmeistari félagsliða í frjálsum íþróttum 15-22 ára þegar Meistaramót Íslands 15-22 ára fór fram á Kópavogsvelli.

Lið HSK/Selfoss hlaut 459 stig og sigraði með yfirburðum en Breiðablik varð í 2. sæti með 286 stig. HSK/Selfoss sigraði einnig stigakeppnina í flokki 15 ára pilta, 15 ára stúlkna og 16-17 ára stúlkna.

Bætti 48 ára gamalt héraðsmet
Eitt HSK-met leit dagsins ljós á mótinu en Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, bætti 48 ára gamalt héraðsmet Óskars Reykdalssonar í sleggjukasti 15 ára pilta með 4 kg sleggju. Met Óskars hafði staðið óhaggað frá árinu 1975 og var 38,66 m en Hjálmar kastaði 39,41 í fjórða kasti og bætti svo um betur í lokakastinu og þeytti sleggjunni 40,60 m.

Hjálmar Vilhelm vann flesta Íslandsmeistaratitla allra á mótinu, eða átta talsins. Auk sigurs í sleggjukasti þá sigraði hann einnig í 300m grindahlaupi, stangarstökki, þrístökki, kringlukasti, kúluvarpi, spjótkasti og boðhlaupi í flokki 15 ára pilta. Með honum í boðhlaupssveitinni voru Vésteinn Loftsson, Helgi Reynisson og Ívar Ylur Birkisson. Ívar Ylur varð einnig Íslandsmeistari í 80 m grindahlaupi og hástökki í 15 ára flokknum.

Sunnlendingar oftast allra á verðlaunapalli
Í flokki 15 ára stúlkna vann Hugrún Birna Hjaltadóttir þrenn gullverðlaun en hún varð Íslandsmeistari í þrístökki, langstökki og 300 m grindahlaupi. Í stangarstökkskeppninni stóðu jafnar og efstar þær Sara Mist Sigurðardóttir og Arna Hrönn Grétarsdóttir en Arna Hrönn varð fjórfaldur Íslandsmeistari því hún sigraði sömuleiðis í sleggjukasti og hástökki auk þess sem hún var í boðhlaupssveit 18-19 ára stúlkna sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi. Með henni í sveitinni voru Hjördís Katla Jónasdóttir, Hanna Dóra Höskuldsdóttir og Erlín Katla Hansdóttir.

Í 16-17 ára flokki varð Daníel Breki Elvarsson tvöfaldur Íslandsmeistari, sigraði í hástökki og spjótkasti. Ísold Assa Guðmundsdóttir varð sömuleiðis tvöfaldur meistari, sigraði í þrístökki og kúluvarpi. Eydís Arna Birgisdóttir varð Íslandsmeistari í 400 m hlaupi og Hanna Dóra Höskuldsdóttir varð Íslandsmeistari í 400 m grindahlaupi og fyrrnefndu boðhlaupi 18-19 ára.

Mýrdælingar áttu líka sína fulltrúa á mótinu en Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, varð tvöfaldur Íslandsmeistari í flokki 16-17 ára pilta. Egill sigraði í langstökki þar sem hann stökk 6,16 m og í þrístökki þar sem hann stökk 12,32 m.

Í flokki 18-19 ára varð Martin Patryk Srichakham tvöfaldur Íslandsmeistari en hann sigraði í 1.500 m hlaupi og 400 m grindahlaupi.

Í flokki 20-22 ára varð Eva María Baldursdóttir Íslandsmeistari í hástökki og Hildur Helga EInarsdóttir varð Íslandsmeistari í sleggjukasti.

Fyrri greinBetri heilsa – aukin lífsgæði: Öldrunarendurhæfing á Heilsustofnun NLFÍ
Næsta greinSr. Kristján endurkjörinn vígslubiskup