HSK/Selfoss sigraði á MÍ 11-14 ára

Lið HSK/Selfoss fagnar sigri í mótslok. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lið HSK/Selfoss sigraði örugglega í stigakeppni Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára sem fram fór á Sauðárkróksvelli um síðustu helgi. Keppendur frá HSK/Selfoss unnu nítján Íslandsmeistaratitla.

HSK/Selfoss sendi fjölmennt og sterkt lið á mótið og sigraði í heildarstigakeppninni með 943 stig. FH varð í öðru sæti með 680 stig. HSK/Selfoss sigraði einnig stigakeppnina í flokkum 12 ára pilta, 13 ára pilta, 14 ára pilta og 14 ára stúlkna. Krakkarnir í HSK/Selfoss unnu sem fyrr segir nítján gullverðlaun en auk þess þrettán silfurverðlaun og sextán bronsverðlaun.

Veigar Þór Víðisson kom heim með fjóra Íslandsmeistaratitla í íþróttatöskunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Maður helgarinnar í liði HSK/Selfoss var Veigar Þór Víðisson en hann varð fjórfaldur Íslandsmeistari í 14 ára flokki. Veigar Þór sigraði í 80 m grindahlaupi á 13,34 sek, kúluvarpi þar sem hann kastaði 11,21 m og hástökki, þar sem hann stórbætti sig, stökk 1,72 m og átti góðar tilraunir við 1,74 m. Veigar Þór var einnig í boðhlaupssveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m hlaupi á 52,81 sek. Með honum í sveitinni voru Oliver Jan Tomczyk, Daníel Breki Elvarsson og Kristinn Viðar Eyjólfsson.

Oliver Jan og Daníel Breki urðu báðir tvöfaldir meistarar í 14 ára flokki, því auk boðhlaupsins sigraði Oliver í 600 m hlaupi á 1:46,08 mín og Daníel í spjótkasti, þar sem hann kastaði 41,98 m.

HSK/Selfoss vann þrefaldan sigur í hástökki í flokki 14 ára pilta. (F.v.) Daníel Breki Elvarsson (silfur), Veigar Þór Víðisson (gull), Þórbergur Egill Yngvason (brons) og Stefán Máni Hákonarson Ármanni (brons). sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Álfrún Diljá Kristínardóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi 14 ára eftir æsispennandi keppni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í flokki 14 ára stúlkna varð Álfrún Diljá Kristínardóttir tvöfaldur meistari. Hún sigraði í kúluvarpi, þar sem hún kastaði 10,44 m og sigraði eftir æsispennandi keppni. Álfrún var einnig í boðhlaupssveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m hlaupi á 56,93 sek. Með henni í sveitinni voru Sæbjörg Erla Gunnarsdóttir, Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir og Þórhildur Arnarsdóttir. Sunnlendingar hlupu frábærlega í þessu hlaupi því B-sveit HSK/Selfoss gerði sér lítið fyrir og krækti í silfurverðlaunin, þannig að HSK/Selfoss átti átta fulltrúa á verðlaunapallinum. B-sveitina skipuðu þær Guðlaug Birta Davíðsdóttir, Hanna Dóra Höskuldsdóttir, Freydís Ósk Martin og Þórkatla Loftsdóttir.

HSK/Selfoss vann tvöfaldan sigur í 4×100 m hlaupi 14 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson varð tvöfaldur Íslandsmeistari í flokki 13 ára pilta. Hann sigraði í 600 m hlaupi á 1:47,24 mín og var í boðhlaupssveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi á 58,43 sek. Auk Þorvaldar voru í sveitinni þeir Rökkvi Þeyr Guðjónsson, Emil Vilbergsson og Kristófer Árni Jónsson.

Ísold Assa Guðmundsdóttir sigraði í hástökki 13 ára. sunnlenska.is/Guðmundur karl

Ísold Assa Guðmundsdóttir vann frábæran sigur eftir hörkukeppni í hástökki 13 ára stúlkna og varð Íslandsmeistari, þar sem hún bætti sig um 5 sm og stökk 1,55.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson varð þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 12 ára pilta. Hann vann glæsilegan sigur í kúluvarpi, kastaði 9,99 m og var aðeins 6 sm frá mótsmetinu í greininni. Þá sigraði hann einnig í spjótkasti, þar sem hann kastaði 31,84 m og var í boðhlaupssveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi á 1:02,65 mín. Með Hjálmari í sveitinni voru þeir Bjarki Sigurður Geirmundsson, Vésteinn Loftsson og Vikar Reyr Víðisson.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson sigraði og var hársbreidd frá mótsmetinu í kúluvarpi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Bryndís Embla Einarsdóttir sigraði í spjótkasti 11 ára. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Helga Fjóla Erlendsdóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari. Hér er hún í miðið á verðlaunapalli í hástökki ásamt Bryndísi Emblu Einarsdóttur og Ásthildi Lilju Atladóttur, FH. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Síðast en ekki síst náðu Sunnlendingar glæsilegum árangri í 11 ára flokki. Bryndís Embla Einarsdóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari. Hún sigraði í kúluvarpi, kastaði 8,01 m og í spjótkasti, þar sem hún kastaði 24,02 m. Helga Fjóla Erlendsdóttir varð einnig tvöfaldur meistari en hún sigraði í hástökki með stökk upp á 1,37 m og í langstökki, þar sem hún stökk 4,27 m.

Kormákur Hjalti Benediktsson kom, sá og sigraði í hástökki pilta 11 ára, stökk 1,26 m.

Mjög mikið var um bætingar hjá HSK/Selfoss-krökkunum en samtals voru 93 skráðar bætingar hjá hópnum en að auki hlupu þau mörg á góðum tíma í sprett- og grindahlaupum en vindur of mikill til að árangur sé löglegur og það sama gildir í langstökki.

Lið HSK/Selfoss sigraði í flokki 14 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Lið HSK/Selfoss sigraði í flokki 14 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Lið HSK/Selfoss sigraði í flokki 13 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Lið HSK/Selfoss sigraði í flokki 12 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinTíu Selfyssingar sigruðu Hauka
Næsta greinTónleikar í Sundhöll Selfoss