HSK/Selfoss sigraði á MÍ 11-14 ára – Þorvaldur og Hjálmar settu mótsmet

Lið HSK/Selfoss fagnar sigri á mótinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lið HSK/Selfoss sigraði örugglega í stigakeppni Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára sem fram fór á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum um helgina. Keppendur frá HSK/Selfoss unnu fimmtán Íslandsmeistaratitla.

HSK/Selfoss sendi öflugt lið á mótið og sigraði í heildarstigakeppninni með 745 stig. FH varð í öðru sæti með 467 stig. HSK/Selfoss sigraði einnig stigakeppnina í flokkum 12 ára stúlkna, 14 ára stúlkna, 13 ára pilta og 14 ára pilta. Krakkarnir í HSK/Selfoss unnu sem fyrr segir fimmtán gullverðlaun en auk þess fjórtán silfurverðlaun og fjórtán bronsverðlaun.

Þorvaldur og Hjálmar settu mótsmet
Þorvaldur Gauti Hafsteinsson varð Íslandsmeistari í 600 m hlaupi í flokki 14 ára á nýju mótsmeti, hljóp á 1:34,78. Hann bætti sig um rúma sekúndu síðan á Aldursflokkamóti HSK á dögunum og setti héraðsmet í öllum flokkum frá 14 ára flokki upp í karlaflokk. Tími Þorvaldar Gauta á Egilsstöðum er þriðji besti tíminn frá upphafi í 600 m hlaupi í 14 ára flokki á landsvísu.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson setti einnig mótsmet en hann sigraði í spjótkasti 13 ára og kastaði 48,42 metra. Hjálmar varð einnig Íslandsmeistari í kúluvarpi, kastaði 11,66 m.

Hörð keppni í kúluvarpi 14 ára
Ívar Ylur Birkisson vann sömuleiðis tvo Íslandsmeistaratitla í flokki 13 ára, hann sigraði í 80 m grindahlaupi á 13,37 sek og í hástökki, þar sem hann stökk 1,60 m.

Emil Vilbergsson varð Íslandsmeistari í kúluvarpi 14 ára eftir æsispennandi keppni við Mýrdælinginn Eyjólf Lárus Guðbjörnsson, Umf. Kötlu. Emil gulltryggði sigurinn með risakasti upp á 11,14 m í lokaumferðinni en Eyjólfur varð í 2. sæti með kast upp á 10,38 m.

Bryndís Embla fjórfaldur Íslandsmeistari
Bryndís Embla Einarsdóttir varð fjórfaldur Íslandsmeistari í flokki 12 ára en hún sigraði í 600 m hlaupi á 2:04,00 mín, stökk 1,45 m í hástökki, kastaði kúlu 9,07 m og spjótinu 25,24 m. Í sama flokki varð Helga Fjóla Erlendsdóttir tvöfaldur Íslandsmeistari, hún sigraði í 60 m hlaupi á 9,38 og stökk svo 4,22 m í langstökki.

Ísold Assa Guðmundsdóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi 14 ára, kastaði 9,72 m, Adda Sóley Sæland varð Íslandsmeistari í 600 m hlaupi 11 ára á tímanum 2:04,02 mín og Þórunn Eyland Gunnarsdóttir varð Íslandsmeistari í spjótkasti 11 ára, kastaði 17,37 m.

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson setti mótsmet 600 m hlaupi 14 ára og bætti sín eigin héraðsmet í sex aldursflokkum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Hjálmar Vilhelm Rúnarsson sigraði í spjótkasti 13 ára á nýju mótsmeti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Ívar Ylur Birkisson sigraði bæði í 80 m grindahlaupi og hástökki 13 ára. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Eftir harða keppni í kúluvarpi 14 ára sigraði Emil Vilbergsson (fyrir miðju) annar varð Eyjólfur Lárus Guðbjörnsson (t.v.) og þriðji Fjölnir Úlfur Ágústsson (t.h.). sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Bryndís Embla Einarsdóttir varð fjórfaldur Íslandsmeistari og sigraði meðal annars í 600 m hlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Helga Fjóla Erlendsdóttir sigraði í langstökki og 60 m hlaupi 12 ára. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Ísold Assa Guðmundsdóttir (fyrir miðju) varð Íslandsmeistari í kúluvarpi. Með henni á verðlaunapallinum eru Katla Margrét Jónsdóttir (t.v.) og Ísold Sævarsdóttir (t.h.). sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Adda Sóley Sæland býr sig undir að kasta kúlu. Hún varð Íslandsmeistari í 600 m hlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Þórunn Eyland Gunnarsdóttir varð Íslandsmeistari í spjótkasti 11 ára. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Þrefaldur HSK/Selfoss sigur í kúluvarpi 12 ára. (F.v.) Arndís Erna Vigfúsdóttir, Bryndís Embla Einarsdóttir og Aldís Fönn Benediktsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Hressar HSK stelpur sem pöntuðu mynd af sér á sunnlenska.is. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Ásta Dís Ingimarsdóttir hleypur 600 m hlaup. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Lára Hlín Kjartansdóttir mundar spjótið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Helgi Reynisson fór fyrir sigurhring með stigabikarinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
HSK/Selfoss sigraði í stigakeppni 12 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
HSK/Selfoss sigraði í stigakeppni 13 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
HSK/Selfoss sigraði í stigakeppni 14 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
HSK/Selfoss sigraði í stigakeppni 14 ára stúlkna. Ljósmynd/Þuríður Ingvarsdóttir
Sigurlið HSK/Selfoss í heildarstigakeppni mótsins. Ljósmynd/Þuríður Ingvarsdóttir
Fyrri greinSmávélar buðu lægst í malbikun
Næsta greinFóru á uppblásinni sundlaug út á vatnið