HSK/Selfoss sigraði á MÍ 11-14 ára – Stephanie Ósk jafnaði Íslandsmet

Sigurlið HSK/Selfoss á MÍ 11-14 ára 2019. sunnlenska.is/Benedikt Hrafn Guðmundsson

Lið HSK/Selfoss sigraði heildarstigakeppni Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára sem fram fór á Laugardalsvellinum um síðustu helgi. Keppendur frá HSK/Selfoss unnu þrettán Íslandsmeistaratitla.

Hápunktur mótsins var þó afrek Stephanie Óskar Ingvarsdóttur, Umf. Kötlu, sem jafnaði Íslandsmetið í hástökki stúlkna 12 ára og sigraði með stökk upp á 1,56 cm. Þetta er í fyrsta sinn sem Mýrdælingur setur Íslandsmet í frjálsum íþróttum og metstökk Stephanie er einnig héraðsmet í kvennaflokki hjá USVS. Stephanie varð einnig Íslandsmeistari í langstökki þegar hún stökk 4,80 m og hún vann tvö bronsverðlaun að auki. Katla sendi öflugan keppendahóp til leiks á mótið, varð í 8. sæti heildarstigakeppninnar og sló stærri félögum ref fyrir rass.

Vésteinn bætti 37 ára gamalt met
HSK/Selfoss sendi fjölmennt og sterkt lið á mótið og sigraði í heildarstigakeppninni með 837 stig. FH varð í öðru sæti með 483,5 stig. HSK/Selfoss sigraði einnig stigakeppnina í flokkum 11 ára pilta, 13 ára pilta og 13 ára stúlkna. Krakkarnir í HSK/Selfoss unnu sem fyrr segir þrettán gullverðlaun en auk þess 23 silfurverðlaun og þrettán bronsverðlaun.

Eitt HSK met var slegið á mótinu en Vésteinn Loftsson bætti 37 ára gamalt met handboltakappans Einars Gunnars Sigurðssonar í langstökki 11 ára pilta. Vésteinn stökk 4,58 m en gamla metið, sem var frá árinu 1982, var 4,51 m.

Veigar Þór fjórfaldur meistari
Veigar Þór Víðisson varð fjórfaldur Íslandsmeistari í flokki 13 ára pilta. Hann sigraði í 80 m grindahlaupi á 14,58 sek, í hástökki stökk hann 1,57 m, spjótinu kastaði hann 31,61 m og í langstökki stökk hann 5,10 m.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson varð þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 11 ára pilta. Hann sigraði í kúluvarpi með kasti upp á 9,03 m og í spjótkasti kastaði hann 30,96 m. Þá var hann í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi á tímanum 63,70 sek en auk Hjálmars voru í sveitinni þeir Bjarki Sigurður Geirmundarson, Þorvaldur Daði Guðnason og Vésteinn Loftsson.

Auður Helga Halldórsdóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari í 14 ára stúlknaflokki. Hún sigraði í langstökki þegar hún stökk 14,89 m og í spjótkasti kastaði hún 30,95 m.

Í 14 ára piltaflokki varð Tómas Þorsteinsson Íslandsmeistari í kúluvarpi með kast upp á 9,89 m og kúluvarpsmeistararnir voru fleiri því Oliver Jan Tomczyk varð Íslandsmeistari í kúluvarpi 13 ára pilta með 10,65 m kast og í sama aldursflokki stúlkna varð Álfrún Diljá Kristínardóttir Íslandsmeistari með 11,08 m kast.

Þá var Esja Sigríður Nönnudóttir Íslandsmeistari í hástökki stúlkna 11 ára þegar hún stökk 1,26 m.

Stephanie Ósk ásamt Ástþóri þjálfara. Ljósmynd/Aðsend
(F.v.) Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 11 ára og Vésteinn Loftsson, sem bætti 37 ára gamalt héraðsmet í langstökki. Ljósmynd/Guðbjörg Viðarsdóttir
Sveit HSK/Selfoss sigraði í stigakeppni 13 ára pilta. (F.v.) Daníel Breki Elvarsson, Oliver Jan Tomczyk, Þórbergur Egill Yngvason og Veigar Þór Víðisson, en Veigar sigraði í fjórum greinum á mótinu. Ljósmynd/Guðbjörg Viðarsdóttir
Sveit HSK/Selfoss sigraði stigakeppnina í flokki 13 ára stúlkna. (F.v.) Álfrún Diljá Kristínardóttir, Þórhildur Arnarsdóttir, Þórkatla Loftsdóttir, Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir, Hanna Dóra Höskuldsdóttir, Guðlaug Birta Davíðsdóttir, Edda Margrét Magnúsdóttir og Sæbjörg Erla Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Guðbjörg Viðarsdóttir
Sveit HSK/Selfoss sigraði í flokki 11 ára pilta. (F.v.) Bjarki Sigurður Geirmundarson, Kristján Kári Ólafsson, Hjálmar Rúnarsson, Vésteinn Loftsson og Þorvaldur Daði Guðnason. Ljósmynd/Guðbjörg Viðarsdóttir
Hressir Kötlukrakkar ásamt Ástþóri þjálfara. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinÁrborg tapaði í toppslagnum
Næsta greinSelfoss fær danskan markvörð