HSK/Selfoss sigraði á MÍ 11-14 ára – Hjálmar setti mótsmet

Sigurlið HSK/Selfoss. Ljósmynd/FRÍ

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára fór fram í Laugardalshöllinni um síðustu helgi. Lið HSK/Selfoss sigraði í heildarstigakeppni mótsins með 543,5 stig eftir hörkukeppni við ÍR sem varð í 2. sæti með 518,5 stig. Ungmennafélagið Breiðablik varð í 3. sæti með 417 stig.

Keppendur frá HSK/Selfoss sigruðu sömuleiðis í stigakeppninni í flokki 12 ára stúlkna, 14 ára pilta og 14 ára stúlkna. Árangurinn hjá krökkunum var glæsilegur og persónulegar bætingar mjög margar og miklar. Liðið vann til 36 verðlauna á mótinu, 12 gullverðlauna, 12 silfur og 12 brons.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson varð Íslandsmeistari og setti mótsmet í kúluvarpi 14 ára pilta þegar hann varpaði kúlunni 12,61 m. Hjálmar Vilhelm vann fjóra aðra Íslandsmeistaratitla, hann sigraði í hástökki með 1,72m, 600 m hlaupi á 1:40,13 mín og langstökki með 5,45 m og var í sveit HSK/Selfoss sem vann gull í 4×200 m boðhlaupi. Með honum í sveitinni voru Vikar Reyr Víðisson, Ívar Ylur Birkisson og Vésteinn Loftsson.

Ívar Ylur og Vésteinn deildu Íslandsmeistaratitlinum í 60 m hlaupi. Þeir komu í mark á 8,17 sekúndum og ekki sjónarmunur á þeim. Tvö gull í húsi þar hjá HSK/Selfoss en Ívar Ylur sigraði auk þess í 60 m grindahlaupi á 9,65 sek. Að auku unnu þeir Hjálmar, Ívar og Vésteinn fjölda silfur- og bronsverðlauna í 14 ára flokknum.

Bryndís Embla Einarsdóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari í 13 ára flokki. Hún sigraði í hástökki með stökk upp á 1,46 m og í kúluvarpi með persónulega bætingu kastaði 10,14 m.

Engin HSK met féllu á mótinu en Esja Sigríður Nönnudóttir og Hugrún Birna Hjaltadóttir voru nálægt því að bæta 38 ára gamalt héraðsmet Huldu Helgadóttur í langstökki í flokki 14 ára stúlkna. Esja Sigríður varð önnur í langstökkinu með stökk upp á 5,06 m, og Hugrún Birna varð í 3. sæti, stökk 5,05 metra. HSK-metið í aldursflokknum er 5,09 m og ljóst að þær Esja og Hugrún Birna geta sett sér það markmið að bæta það á árinu.

Adda Sóley Sæland peppar liðsfélaga sinn. Ljósmynd/FRÍ
Helgi Reynisson og Vésteinn Loftsson hita upp. Ljósmynd/FRÍ
Jósúa Eldar Ragnarsson hreppti silfrið í kúlúvarpi 11 ára. Ljósmynd/FRÍ
Hugrún Birna Hjaltadóttir vann bronsverðlaun í langstökki 14 ára. Ljósmynd/FRÍ
Hörkukeppni í 60 m grindahlaupi 14 ára. Ívar Ylur fyrstur yfir grindina. Honum á hægri hönd er Hjálmar Vilhelm og Vésteinn er lengst til vinstri á myndinni. Ljósmynd/FRÍ
Lilja Kristín Viðarsdóttir í langstökki. Ljósmynd/FRÍ
Sara Mist Sigurðardóttir stekkur langstökk. Ljósmynd/FRÍ
Bryndís Embla Einarsdóttir í langstökki. Hún varð Íslandsmeistari í hástökki og kúluvarpi 13 ára. Ljósmynd/FRÍ
Fyrri greinHeilsustofnun er Stofnun ársins í sínum flokki
Næsta greinKristrún fundar á Suðurlandi