HSK/Selfoss sigraði á Meistaramóti Íslands í frjálsum 11-14 ára

Lið HSK/Selfoss á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára 2019. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lið HSK/Selfoss sigraði í heildarstigakeppni Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára sem fram fór í Laugardalshöllinni um helgina.

HSK/Selfoss fékk 600 stig í stigakeppninni en Ungmennafélagið Breiðablik varð í 2. sæti með 437 stig og skammt þar á eftir kom Fimleikafélag Hafnarfjarðar með 428,5 stig.

Keppendur frá HSK/Selfoss sigruðu sömuleiðis í stigakeppninni í þremur aldursflokkum; í flokki 11 ára pilta, 13 ára pilta og 14 ára stúlkna.

Stephanie setti mótsmet
Stephanie Ósk Ingvarsdóttir, Umf. Kötlu, varð tvöfaldur Íslandsmeistari, í langstökki og hástökki 12 ára stúlkna. Hún bætti sinn besta árangur í báðum greinum og gerði sér lítið fyrir og setti mótsmet í hástökkinu, stökk 1,49 sm og bætti eldra met um 2 sm.

Umf. Katla sendi sjö keppendur á mótið og varð í 11. sæti í heildarstigakeppninni af 16 liðum.

Sex Íslandsmeistarar í kúluvarpi
Keppendur frá HSK/Selfoss kræktu í átta Íslandsmeistaratitla á mótinu en athygli vakti að sex þeirra voru fyrir kúluvarp. Oliver Jan Tomczyk varð tvöfaldur meistari í flokki 13 ára pilta, sigraði í kúluvarpi og 60 m grindahlaupi. Hjálmar Vilhelm Rúnarsson varð einnig tvöfaldur meistarari, en hann sigraði í kúluvarpi 11 ára pilta og var í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×200 m boðhlaupi. Með honum í sveitinni voru Logi Smárason, Friðrik Smárason og Vésteinn Loftsson.

Aðrir Íslandsmeistarar HSK/Selfoss í kúluvarpi voru Kristófer Árni Jónsson í flokki 12 ára, Álfrún Diljá Kristínardóttir í flokki 13 ára og þau Tómas Þorsteinsson og Árbjörg Sunna Markúsdóttir sigruðu í 14 ára flokkunum.

Vésteinn setti HSK-met
Vésteinn Loftsson var sá eini sem náði að slá HSK met á mótinu en hann varð fjórði í úrslitum 60 metra hlaups 11 ára pilta á 9,06 sekúndum og bætti eldra met um 0,01 sekúndu. Viktor Karl Halldórsson átti eldra metið frá árinu 2013.

Stephanie Ósk Ingvarsdóttir sigraði í hástökki 12 ára á nýju mótsmeti. Með henni á palli eru (t.v.) Marlín Ívarsdóttir, FH, sem varð í 2. sæti og Jónína Linnet, FH, sem varð í 3. sæti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
(F.v.) Hjálmar Vilhelm Rúnarsson varð tvöfaldur Íslandsmeistari og Vésteinn Loftsson setti HSK met í 60 m hlaupi 11 ára. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Lið HSK/Selfoss sigraði stigakeppnina í flokki 11 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Lið HSK/Selfoss sigraði stigakeppnina í flokki 13 ára pilta. Daníel Breki Elvarsson var sá eini úr liðinu sem var viðstaddur verðlaunaafhendinguna í mótslok. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Lið HSK/Selfoss sigraði stigakeppnina í flokki 14 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinBjörguðu fjölskyldu sem var föst á Uxahryggjarvegi
Næsta greinFramúrskarandi vinna við öryggismál á Jötunheimum