HSK/Selfoss bikarmeistari 15 ára og yngri

A og B lið HSK/Selfoss eftir mótið í Kaplakrika síðastliðinn laugardag. Ljósmynd/Þuríður Ingvarsdóttir

Lið HSK/Selfoss varð um helgina bikarmeistari í frjálsum íþróttum 15 ára og yngri en Bikarkeppnir FRÍ voru haldnar í Hafnarfirði á laugardag.

HSK/Selfoss sigraði heildarstigakeppnina með yfirburðum og varði þar með titilinn frá síðasta ári, liðið fékk 74 stig og sigraði í ellefu greinum á mótinu. B-lið HSK/Selfoss gerði sér lítið fyrir og varð í 3. sæti og sló við bæði Breiðabliki og ÍR.

HSK/Selfoss sigraði einnig í piltakeppninni, með 39 stig og B-liðið varð í 2. sæti með 25 stig. HSK/Selfoss hafði mikla yfirburði í piltakeppninni þar sem strákarnir í A-liðinu unnu allar greinar keppninnar nema eina, þar sem B-liðs maður sigraði. HSK/Selfoss varð í 2. sæti í stúlknaflokki eftir harða keppni við FH sem sigraði.

Eitt Íslandsmet leit dagsins ljós á mótinu en Hjálmar Vilhelm Rúnarsson kastaði 600 gr spjóti 46,02 metra. Hann bætti þar tíu ára gamalt met Teits Arnar Einarssonar um 17 sm og kastið hjá Hjálmari er að sjálfsögðu einnig héraðsmet í aldursflokknum.

Bikarkeppnin er alltaf mikið stemningsmót þar sem áherslan er lögð á liðið og ekki veitt einstaklingsverðlaun, en einn keppandi keppir fyrir hvert félag í hverri grein. Það skemmdi ekki stemninguna að þegar heim á Selfoss var komið bauð Kaffi Krús liðum HSK/Selfoss í pizzaveislu til að fagna góðum árangri á mótinu.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson setti Íslandsmet í spjótkasti 13 ára með 600 gr spjóti. Ljósmynd/FRÍ
Tveir bikarar í húsi. Ljósmynd/Þuríður Ingvarsdóttir
Fyrri greinBiskupstungnabraut lokuð í tvo daga
Næsta greinViðburðarík vika hjá lögreglunni