HSK/Selfoss bikarmeistari 15 ára og yngri

Sigurlið HSK/Selfoss. Ljósmynd: FRÍ/Marta Siljudóttir

Lið HSK/Selfoss sigraði á bikarkeppni 15 ára og yngri í frjálsum íþróttum sem haldin var á ÍR-vellinum í Breiðholti um síðustu helgi.

Sunnlendingarnir háðu harða keppni við heimamenn í ÍR en að lokum sigraði HSK/Selfoss með 105 stig en ÍR hlaut 99 stig. HSK/Selfoss sigraði sömuleiðis í stúlknakeppninni með 63 stig en ÍR varð í 2. sæti með 55 stig. Í piltaflokki urðu ÍR-ingar bikarmeistarar með 44 stig eftir æsispennandi keppni og HSK/Selfoss varð í 2. sæti með 42 stig en aðeins munaði sjö stigum á efstu fjórum liðunum.

Sunnlendingar sigruðu í ellefu greinum og meðal annars varð Bryndís Embla Einarsdóttir þrefaldur bikarmeistari en hún sigraði í kúluvarpi og spjótkasti auk þess sem hún var í boðhlaupssveit HSK/Selfoss í 1.000 m boðhlaupi með þeim Önnu Mettu Óskarsdóttur, Hugrúnu Birnu Hjaltadóttur og Helgu Fjólu Erlendsdóttur.

Helga Fjóla sigraði einnig í 80 m grindahlaupi og bætti þar sitt eigið héraðsmet í greininni í flokki 14 ára stúlkna, hljóp á 12,70 sek og bætti metið um 0,22 sek.

Vésteinn Loftsson bætti sinn persónulega besta árangur og setti mótsmet þegar hann sigraði í kringlukasti, kastaði 52,52 m og Ívar Ylur Birkisson sigraði í 100 m grindahlaupi á nýju héraðsmeti í 15 ára flokki, 14,13 sek. Ívar Ylur bætti þar tólf ára gamalt met Sigþórs Helgasonar um 0,64 sekúndur og var aðeins 0,04 sekúndum frá Íslandsmeti Ragúels Pino Alexanderssonar í þessum aldursflokki.

Ívar Ylur Birkisson. Ljósmynd: FRÍ/Marta Siljudóttir
Helga Fjóla Erlendsdóttir. Ljósmynd: FRÍ/Marta Siljudóttir
Vésteinn Loftsson. Ljósmynd: FRÍ/Marta Siljudóttir
Fyrri greinÁtta marka jafntefli í síðasta heimaleiknum
Næsta greinHellur og lagnir átti eina tilboðið í göngustíga á Geysi